Vísindamenn segja að stærðin skipti máli

mbl.is/Sverrir

Hópur alþjóðlegra vísindamanna hefur komist að þeirri niðurstöðu að stærð getnaðarlimsins skiptir máli. Þeir segja að konur laðist fremur að körlum sem eru vel vaxnir að neðan.

Þetta hafi verið þróunin allt frá forsögulegum tíma þegar konur gátu beinlínis séð kynfæri léttklæddra karla. Konur hafi því fremur valið sér maka sem voru með stórt undir sér og hafi stærðarþróunin síðan þá verið upp á við - ef svo má komast að orði.

Vísindamennirnir ákváðu að rannsaka málið þar sem mikill ágreiningur hefur verið um fyrri rannsóknarniðurstöður, en þeir segja að niðurstöðurnar hafi mögulega verið litaðar af því að konur voru spurðar of beint út.

„Af því að stærð getnaðarlima er viðkvæmt umræðuefni, þá er erfitt að komast að því hvort konur hafi verið að segja ósatt eða verið blekkja sig í sínum svörum,“ segir Brian Mauts hjá háskólanum í Ottawa í Kanada, en hann fór fyrir rannsókninni.

Notast var við 53 tölvuteiknaðar myndir af karlmönnum sem voru mismunandi háir, mismunandi í laginu og stærð kynfæra þeirra var sömuleiðis mismunandi. Tekið er fram að miðað var við getnaðarlimi sem voru ekki í fullri reisn.

Alls tóku 105 ástralskar gagnkynhneigðar konur þátt í rannsókninni og var þeim gert að skoða myndirnar frá mismunandi sjónarhornum.

Konurnar voru ekki upplýstar um það að þær væru að taka þátt í rannsókn þar sem verið var að rannsaka stærð getnaðarlima. Þær voru einfaldlega beðnar um að gefa myndunum einkunnir út frá því sem þeim þótti kynferðislega aðlaðandi.

Vísindamennirnir komust að þeirri niðurstöðu að konurnar hafi verið hrifnastar af hávöxnum karlmönnum með langa getnaðarlimi. Þá kom í ljós að þær horfðu lengur á hærri karlmenn.

Niðurstöðurnar hafa verið birtar í bandaríska vísindaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences (PNAS).

Niðurstöðurnar eru þvert á þær fullyrðingar að stærðin skipti fæstar konur máli. Þá gefur þetta vísbendingu um hvers vegna karlar eru með hlutfallslega stærri kynfæri í samanburði við önnur fremdardýr.

Kynþáttur karlanna var ekki skoðaður og hvort hann hafði áhrif á stærðina. Hins vegar var kynþáttur og aldur kvennanna skoðaður í þessu tilliti. Yfir 70% þátttakenda voru konur af evrópskum uppruna, 20% voru asískar og 7% voru af öðrum kynþætti. Meðalaldur þeirra var 26 ár.

mbl.is