Bólusetningar bjarga milljónum barna

Barn bólusett gegn lömunarveiki í Kano héraði í Nígeríu.
Barn bólusett gegn lömunarveiki í Kano héraði í Nígeríu. AFP

Talið er að bólusetningar hafi bjargað lífum um 5,5 milljóna barna í Afríku á rúmum áratug, eða síðan GAVI sjóðurinn (Global Alliance for Vaccines and Immunisation) var stofnaður árið 2000. Fyrir tilstuðlan hans hafa 370 milljón börn verið bólusett fyrir lífshættulegum sjúkdómum. Landlæknir segir reynsluna bæði í Afríku og V-Evrópu sýna að aldrei megi slá slöku við í bólusetningum barna.

Frá þessu er greint í nýjasta tölublaði Heimsljóss, veftímariti um þróunarmál. Þar segir að bólusetningar séu álitnar ein besta fyrirbyggjandi aðgerð sem hægt sé að ráðast í til að bjarga mannslífum, koma í veg fyrir faraldssjúkdóma og spara kostnað í heilbrigðisþjónustu.

„Mislingar skapa mikinn usla í mörgum löndum Afríku sunnan Sahara,“ segir Geir Gunnlaugsson landlæknir í samtali við Heimsljós. Í tilefni alþjóðlegrar bólusetningarviku, sem hófst á mánudag, minna heilbrigðissamtök víða um heim nú á mikilvægi bólusetninga.

Geir segir alla vita að mislingar séu lífshættulegur sjúkdómur ena sé byrjað að bólusetja börn í Afríku strax við 9 mánaða aldur. „Þegar mæður eru síðan spurðar um hvað sé gott við heilbrigðisþjónutuna þá er svarið stutt og laggott: bólusetningar, sérstaklega bólusetnignar gegn mislingum,“ segir landlæknir. 

Við minnsta brest í forvarnarstarfinu getur gosið upp faraldur með alvarlegum afleiðingum, sérstaklega fyrir ung börn og fjölskyldur þeirra. Árið 2000 létust 523 þúsund manns úr mislingum, samanborið við 139 þúsund árið 2010, samkvæmt Heimsljósi.

Enn meiri árangur hefu náðst í baráttunni við lömunarveiki. Tilvikum sjúkdómsins, sem er ólæknandi, hefur fækkað um 99% eftir að bólusetningar gegn lömunarveiki hófust seint á 9. áratugnum. Aðeins 13 tilfelli lömunarveiki hafa verið greind það sem af er ári 2013 og allt árið í fyrra voru tilfellin 230, saman borið við 350.000 tilfelli árlega í kringum 1990. Heimsljós segir ljóst að útrýming lömunarveiki sé í nánd.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) segir þó nokkrar hindranir í veginum fyrir því að hægt sé að bólusetja alla. Skortur á fjármagni sé ein aðalástæðan auk þess sem menn verði seint sammála um hvernig skuli verja því fjármagni sem sett er í heilbrigðismál, enda af mörgu að taka.

Síðasta vor undirrituðu þó fulltrúar 190 þjóða aðgerðaráætlunina GVAP (Global Vaccine Action Plan) sem miðar að því að auka aðgang og nýtingu á bóluefnum. Auk þess er stefn að því að þróa ný og betri bóluefni með það að markmiði að bjarga milljónum mannslífa og spara mikla fjármuni.

Barn bíður þess að fá bólusetningu gegn lömunarveiki í Kano …
Barn bíður þess að fá bólusetningu gegn lömunarveiki í Kano héraði í Nígeríu. AFP
Barn bólusett gegn lömunarveiki í Kano héraði í Nígeríu.
Barn bólusett gegn lömunarveiki í Kano héraði í Nígeríu. AFP
mbl.is