Gríðarlegur stormur á Satúrnusi

Fellibylur gengur nú yfir norðurpól gasrisans Satúrnusar og blikna þau fárviðri sem við þekkjum á Jörðu í samanburði. Auga stormsins er 2000 km í þvermál og vindhraðinn um 530 km/s. Geimfarið Cassini-Huygens frá Nasa náði heillandi myndum af storminum, en vísindamenn vita ekki hversu lengi hann hefur geisað.

Myndirnar eru með þeim fyrstu sem teknar eru af norðurpól Satúrnusar böðuðum í ljósi vorsólarinnar, því þegar Cassini-Huygens kom fyrst að Satúrnusi ríkti þar vetur. Norðurpóllinn hefur raunar ekki sést síðan geimskipið Voyager 2 sendi síðast myndir af honum árið 1981.

Svipar mjög til fellibylja á jörðu

Þegar Satúrnus ferðast kringum sólu vísa norður- og suðurhvel reikistjörnunnar til skiptis að sólinni og veldur það árstíðaskiptum þar rétt eins og á Jörðu. Satúrnus er þó ögn lengur að ljúka þessari hringferð sinni um sólu, eða tæp 30 jarðarár.

BBC hefur eftir Andrew Ingersoll, einum vísindamannanna í Cassini-teyminu við tækniháskólann í Kaliforníu, að þau hafi staldrað við stormsveipinn því hann svipi svo mjög til fellibylja á Jörðu.

„En þarna á Satúrnusi er hann á mun stærri skala og einhvern veginn þrífst hann á því litla mistri sem er að finna í vetnishvelinu.“ Vísindamennirnir telja að fellibylurinn sé „fastur“ á norðurpól Satúrnusar, vindarnir þvingi hann í norðurátt rétt eins og fellibylir færast jafnan úr suðri í norður á Jörðu.

Árið 2006 náði Cassini-Huygens einnig myndum af fellibyl á Satúrnusi og var þetta veðurfyrirbrigði þar með í fyrsta sinn fest á filmu á annarri plánetu en Jörðu.

Vorstormur á 30 jarðára fresti

Á Stjörnufræðivefnum kemur fram að á Satúrnusi sé venjulega enginn risavaxinn og langlífur stormur á borð við stóra, rauða blettinn á Júpíter. Stöku sinnum fari þó af stað miklir stormar sem standi yfir í nokkra daga eða mánuði.

Slíkir stormar birtist einu sinni á hverju Satúrnusarári, eða ríflega 30 jarðára fresti, um það bil á þeim tíma sem sumarsólstöður hefjast á norðurhvelinu. Myndirnar sem nú hafa náðst af fellibylnum á norðurpólnum stemma því við þetta.

Vindar Satúrnusar eru meðal þeirra öflugustu í sólkerfinu, samkvæmt Stjörnufræðivefnum, en ekki er vitað með vissu hvers vegna vindarnir verða svona sterkir.

mbl.is