Horft til sólarorku í eyðimörkinni

Sameinuðu arabísku furstadæmin hafa sett sér háleit markmið þegar kemur að orkuöflun framtíðarinnar. Í áratugi hafa furstadæmin treyst á jarðefnaeldsneyti til uppbyggingar borga í eyðimörkinni og raforkuframleiðslu en svo virðist sem þau séu farin að horfa hýru auga til sólarorkuvera.

Í mars síðastliðnum var Shams 1 sólarorkuverið í Abu Dhabi formlega tekið í notkun. Það er 100 megavatta orkuver og sem getur séð 20 þúsund heimilum og fyrirtækjum fyrir rafmagni. 

Shams 1 er fyrsta skrefið af mörgum í þá átt að nýta geisla sólar betur þar sem sólin skín allan ársins hring. „Shams 1 er fyrsta skrefið á langri vegferð þar sem reynt verður að fjölga orkugjöfum og þar með möguleikum í orkuöflun,“ sagði soldán Ahmed Al Jaber, forstjóri Masdar sem er verkefni Abu Dhabi um sjálfbæru borgina Masdar. „Við munum meðal annars beina athygli okkar að hreinni orku og kjarnorku.“

Þetta er þó ekki eina sólarorkuverið í eyðimörkinni því stjórnvöld í Dúbaí kynntu nýverið áætlanir um risasólarorkuver sem reisa á úti fyrir borginni. Það mun verða tíu sinnum stærra en Shams 1 eða 1.000 megavött.

Gagnrýnendur hafa hins vegar bent á að á sama tíma og Sameinuðu arabísku furstadæmin snúa sér að hreinni orku auka þau olíuframleiðslu og útflutning á olíu. Finnst þeim það skjóta skökku við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert