50 ár síðan kona fór fyrst út í geim

Rússar fagna því í dag að 50 ár eru liðin síðan fyrsta konan fór út í geim. Það var sovéski geimfarinn og þjóðhetjan Valentina Tereshkova sem einnig gekk undir nafninu Mávurinn og varð fyrirmynd stúlkna um allan heim.

Enn í dag er Tereshkova, nú 76 ára, eina konan sem farið hefur ein síns liðs út í geim, en alls hafa 57 konur þó farið út í geiminn og eru tvær staddar þar þessa stundina.

Tveimur árum á eftir Gagarín

Tereshkova hélt í geimferð sína á geimfarinu Vostok-6 árið 1963, tveimur árum eftir hina sögulegu ferð Júrí Gagarín sem stýrði fyrsta mannaða geimfarinu. Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, sagði í dag að sögulegt mikilvægi geimferðar Tereshkova verði seint ofmetið, hvort heldur sem er í sögu rússneskra eða alþjóðlegra geimferða.

„Þú verður að elska landið þitt, elska það svo heitt að hjarta þitt gæti stöðvast,“ sagði Tereshkova í einni af fjölmörgum heimildamyndum sem rússneska ríkissjónvarpið sýndi í dag í tilefni dagsins.

Úr textílverksmiðju og út í geim

Sovétríkin öttu kappi við Bandaríkin um mannaðar geimferðir í kalda stríði 7. áratugarins og var Tereshkova einn 5 geimfara sem stjórnvöld höfðu á lista sem líklega kandídata í fyrstu ferðirnar. 

Bændadóttirin Tereshkova var þá 26 ára og starfaði í textílverksmiðju auk þess að vera foringi kommúnistaæskunnar, Komsomol. Hún var jafnframt mikill ofurhugi og áður en hún var valin til að fara út í geim hafði hún m.a. lokið 90 fallhlífarstökkum.

Henni var á sínum tíma ekki heimilað að greina fjölskyldu sinni frá fyrirhugaðri geimferð og heyrðu þau fyrst af því sem til stóð þegar Moskva tilkynnti öllum heiminum það. Geimferð hennar stóð í þrjá sólarhringa og á þeim tíma fór hún 48 sinnum umhverfis jörðu.

Flestar konur í geimnum bandarískar

Síðan Tereshkova reið á vaðið hafa yfir 40 bandarískar konur haldið út í geim, en aðeins ein rússnesk kona hefur fetað í fótspor hennar. Það var Yelena Kondakova árin 1994 og 1997.

Fram kemur á Stjörnufræðivefnum að í heild hafi 57 konur farið út í geiminn og þar af eru tvær úti í geimnum þessa stundina. Það er hin bandaríska Karen Nyberg í Alþjóðlegu geimstöðinni og hin kínverska Wan Yaping í kínversku geimstöðinni Tiangong 1.

Geimfarinn Valentina Tereshkova fór fyrst allra kvenna út í geim.
Geimfarinn Valentina Tereshkova fór fyrst allra kvenna út í geim. AFP
Geimfarinn Valentina Tereshkova áður en hún steig um borð í …
Geimfarinn Valentina Tereshkova áður en hún steig um borð í geimfarið Vostok 6 í Baikonur geimstöðinni 16 .júní 1963.
Hér má sjá frá hægri Nikíta Krússjeff aðalritara Kommúnistaflokksins í …
Hér má sjá frá hægri Nikíta Krússjeff aðalritara Kommúnistaflokksins í Sovétríkjunum, Júrí Gagarín sem fór fyrstur manna út í geim, Valery Bykovsky geimfara og Valentínu Tereshkova þann 22. júní 1963 á hátíð tileinkaðri vel heppnuðum geimferðum Sovétmanna.
Valentina Tereshkova á æfingu í Vostok geimhermi 17. janúar 1964.
Valentina Tereshkova á æfingu í Vostok geimhermi 17. janúar 1964.
Valentina Tereshkova og Alexei Leonov, fyrsti maðurinn sem framkvæmdi geimgöngu, …
Valentina Tereshkova og Alexei Leonov, fyrsti maðurinn sem framkvæmdi geimgöngu, við minnisvarða um Júrí Gagarín AFP
Vladimir Putin færði Valentina Tereshkova blóm í Moskvu á föstudaginn.
Vladimir Putin færði Valentina Tereshkova blóm í Moskvu á föstudaginn. AFP
Valentina Tereshkova á æfingu í Baikonur geimstöðinni í júní 1963.
Valentina Tereshkova á æfingu í Baikonur geimstöðinni í júní 1963.
mbl.is