Persónulegar upplýsingar láku óvart frá Facebook

Upplýsingar um sex milljónir manns láku óvart til annarra notenda.
Upplýsingar um sex milljónir manns láku óvart til annarra notenda. THIERRY ROGE

Persónulegar upplýsingar um sex milljónir manna láku óvart vegna galla í gagnagrunni Facebook. Það voru netföng og símanúmer notenda sem láku til fólks sem átti ekki að hafa aðgang að þeim upplýsingum. Enn er ekkert sem bendir til þess að upplýsingarnar hafi verið misnotaðar, að sögn forsvarsmanna Facebook.

Forritari sem athugar öryggi netsins komst að lekanum en hann starfar ekki fyrir Facebook. Lekinn varð til vegna þess hvernig Facebook hefur hlaðið niður síma- og netfangaskránum. Gallinn varð til þess að þegar notandi hlóð niður sínu heimasvæði fylgdu með upplýsingar um notendur sem hann átti ekki að hafa aðgang að.

Rannsóknir á gallanum sýndu að upplýsingar um sex milljónir manna hafði verið dreift á þennan hátt. Þrátt fyrir þetta segja forráðamenn Facebook að skaðinn hafi verið smávægilegur vegna þess að umræddum upplýsingum var líklegast einungis deilt með notendum sem þegar þekktu til þeirra aðila sem málið snertir.

Nú hefur gallinn verið lagaður, en forritarinn sem kom upp um hann fékk verðlaunafé fyrir.

Öryggissérfræðingurinn, Graham Cluley, gagnrýndi Facebook fyrir viðbrögð vegna upplýsingalekans og sagði tilkynninguna um gallann einungis hafa verið formsatriði og ekki til að vekja athygli fólks né fjölmiðla, í stað þess að reyna ganga úr skugga um allir notendur vissu af upplýsingalekanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert