Fundu þrjár lífvænlegar stjörnur

Af Stjörnufræðivefnum

Hópur stjörnufræðinga hefur blandað saman nýjum mælingum á stjörnunni Gliese 667C við eldri mælingar HARPS litrófsritans á 3,6 metra sjónauka ESO í Síle og fundið sólkerfi með að minnsta kosti sex reikistjörnum.

Þrjár þessara reikistjarna eru svonefndar risajarðir á því svæði í sólkerfinu þar sem vatn gæti verið á fljótandi formi og því gætu þær mögulega verið lífvænlegar. Þetta er fyrsta sólkerfið sem finnst með fullskipuðu lífbelti.

„Þetta er mjög merkilegt því þetta er í fyrsta sinn sem þrjár reikistjörnur, sem gætu verið lífvænlegar, finnast á braut um einu og sömu stjörnuna,“ segir Sævar Helgi Bragason,  formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness.

„Stjarnan sem um ræðir heitir Gliese 667C og er hluti af þrístirnakerfi. Hún er rauður dvergur í 22 ljósára fjarlægð og því talsvert kaldari en sólin okkar. Þess vegna er lífbeltið — það svæði í sólkerfinu þar sem hitastig er mátulegt fyrir fljótandi vatn, stundum kallað Gullbrársvæðið — miklu nær stjörnunni í þessu sólkerfi en í sólkerfinu okkar.“

Stjarnan Gliese 667C hefur verið rannsökuð umtalsvert. Hún er rétt rúmlega þriðjungur af massa sólar og er hluti af þrístirni sem nefnist Gliese 667 (einnig kallað GJ 667) í 22 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Sporðdrekanum. Kerfið er því mjög nálægt okkur — í næsta nágrenni sólar — mun nær okkur en þau sólkerfi sem sjónaukar á borð við Kepler hafa verið að rannsaka.

Fyrri rannsóknir á Gliese 667C höfðu sýnt að stjarnan hefði að minnsta kosti þrjár reikistjörnur (eso0939 eso1214 ), þar af eina í lífbelti þessa sólkerfis. Nú hefur hópur stjörnufræðinga undir forystu Guillem Anglada-Escudé við Göttingenháskóla í Þýskalandi og Mikko Tuomi við Hertfordshireháskóla í Bretlandi, rannsakað kerfið upp á nýtt og bætt við nýjum mælingum frá HARPS auk gagna frá öðrum sjónaukum [1] . Stjörnufræðingarnir fundu merki um allt að sjö reikistjörnur á braut um daufustu stjörnuna í þrístirnakerfinu [2] . Frá reikistjörnunum séð litu hinar sólirnar tvær út eins og mjög bjartar stjörnur á himninum á daginn en á næturnar væri birta þeirra álíka mikil og frá fullu tungli. Reikistjörnurnar nýfundnu fylla upp í lífbelti Gliese 667C því ekki eru til fleiri stöðugar brautir til þess að fleiri reikistjörnur geti verið í heppilegri fjarlægð frá stjörnunni.

Sjá nánar á Stjörnufræðivefnum.


mbl.is