Heilbrigðum konum boðin krabbameinslyf

Angelina Jolie valdi að láta fjarlægja bæði brjóst sín vegna …
Angelina Jolie valdi að láta fjarlægja bæði brjóst sín vegna hættu á að hún fengi brjóstakrabbamein. PIERRE-PHILIPPE MARCOU

England og Wales verða brátt fyrstu löndin í Evrópu til að bjóða allt að 500 þúsund heilbrigðum konum lyf sem notuð eru við brjóstakrabbameini. Sjúkdóminn er að finna í fjölskyldum kvennanna en ætlunin með lyfjagjöfinni er að koma í veg fyrir að þær veikist af meininu.

Heilbrigðisstofnun Bretlands, NHS, stendur fyrir þessu en lyfin, sem kosta ekki nema um fimm þúsund krónur á ári, geta minnkað líkur á krabbameini um þriðjung. Bjóða á konum, sem eiga nákomna ættingja sem hafa fengið brjóstakrabbamein, lyfin tamoxifen eða raloxifene í fimm ár. „Þetta eru mikil tímamót fyrir konur,“segir prófessorinn Gareth Evans, sem vann með NHS að því að þetta yrði að raunveruleika. Lyfjagjöfin væri ekki aðeins hagkvæm og drægi verulega úr kostnaði hjá NHS heldur kæmi einnig í veg fyrir að konur þyrftu að ganga í gegnum álagið sem fylgir því að greinast með krabbamein og þurfa að undirgangast lyfja- og/eða geislameðferðir. Hann sagði að fyrir hverjar fjórar til fimm konur sem hægt væri að koma í veg fyrir að fengju brjóstakrabbamein, væri hægt að bjarga einu lífi.

Fram að þessu hefur konum, sem eru í áhættuhópi, ýmist verið boðið upp á ítarlegar skoðanir eða skurðaðgerðir þar sem bæði brjóstin eru fjarlægð. Athygli vakti nýverið þegar leikkonan Angelina Jolie greindi frá því að hún hefði undirgengist tvöfalt brjóstnám þar sem miklar líkur voru taldar á því að hún fengi brjóstakrabbamein.

Þetta nýja útspil NHS býður aftur á móti konum að fara milliveginn. Um 50 þúsund konur og 400 karlmenn greinast með brjóstakrabbamein á hverju ári í Bretlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina