Norðurísinn aldrei hörfað hraðar

Þessi mynd var tekin af norðurhveli jarðar þann 19. júní …
Þessi mynd var tekin af norðurhveli jarðar þann 19. júní 2012. Ísbreiðan hefur ekki minnkað meira á einu ári síðan mælingar hófust. Ljósmynd/NASA

Ísbreiðan á norðurhveli jarðar hefur aldrei, síðan gagnasöfnun hófst, hörfað hraðar en árið 2012. Á sama tíma var nýtt met slegið í losun gróðurhúsalofttegunda.

Breskir og bandarískir vísindamenn sem rannsaka loftslagsbreytingar sögðu frá þessu í dag við útgáfu árlegrar, ritrýndar skýrslu undir titlinum Staða loftslagsins (e. State of the Climate).

„Niðurstöðurnar eru sláandi,“ sagði Kathryn Sullivan, framkvæmdastjóri bandarísku veðurstofunnar NOAA. „Plánetan okkar er öll á heildina litið að verða hlýrri.“

Ný met slegin árlega á Norðurheimskautinu

Í nýju skýrslunni segir að samkvæmt 4 sjálfstæðum rannsóknum hafi árið 2012 verið 8. eða 9. hlýjasta árið á Jörðu síðan mælingar hófust um miðja 19. öld. Meðalhitastig var 0,14°C - 0,17°C hlýrra en meðaltal 30 ára tímabils frá 1981-2010, eftir því við hvað er miðað. 

Í september mældist hafísinn á Norðurheimskautinu minni en nokkru sinni frá því mælingar hófust, og snjór á Norðurhveli jarðar var sömuleiðis í sögulegu lágmarki. Yfirborðshiti á Norðurheimskautinu hækkar um tvöfalt hraðar en á öðrum svæðum heimsins, að sögn Jackie Richter-Menge, verkfræðings hjá rannsóknarteymi Bandaríkjahers.

„Á Norðurheimskautinu eru ný met slegin nánast á hverju ári. Þar er orðið norm, frekar en frávik, að met séu slegin frá ári til árs,“ segir Richter-Menge og bætir við að búast megi við því sama munstur haldi áfram á Norðurheimskautinu um ófyrirsjáanlega framtíð.

Samkvæmt skýrslu vísindamannanna var meðalbráðnun Grænlandsjökuls um fjórum sinnum meiri en meðaltalið á þessum tíma ár.

Yfirborð sjávar 3,5 cm yfir fyrri met

Bráðnun íssins hefur áhrif á yfirborð sjávar. Einnig þar var met slegið árið 2012, þegar sjávaryfirborð mældist að jafnaði á heimsvísu 3,5 cm hærra en það var áður hæst, árin 1993 og 2010.

„Það er erfitt að lesa skýrsluna og draga ekki þá ályktun að nú sé mikilvægara en nokkurn tíma fyrr að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda,“ hefur Afp eftir Michael Mann, sérfræðingi í loftslagsrannsóknum við Pennsylvania háskóla í Bandaríkjunum. Sjálfur kom hann ekki að gerð skýrslunnar.

Losun koltvísýrings út í andrúmsloftið hefur aldrei verið meiri en árið 2012 og varð bakslag, því lítillega dró úr losuninni undanfarin ár í kjölfar efnahagskreppunnar. 

Framtíð sem einkennist af öfgum í veðurfari?

„Vorið 2012 fór styrkur CO2 í andrúmslofti yfir 400 milljónustuhluta (ppm) á sjö af 13 rannsóknarstöðvum á Norðurheimskautinu,“ segir í skýrslunni. Að meðaltali mældist styrkleiki koltvísýrings 392,6 ppm árið 2012, sem er 2,1 ppm aukning frá árinu 2011. Það þýðir að af hverjum milljón loftsameindum voru 392,6 sameindir CO2.

Þá benda vísindamennirnir á ýmsar öfgar í veðurfarið árið 2012. Meðal annars urðu bæði miklir þurrkar og óvenjulegar rigningar. Í norðausturhluta Brasilíu urðu verstu þurrkar í 30 ár en í Karíbahafinu var þurrkatímabilið óvenjublautt og á Sahel svæðinu í Afríku varð mesta úrkoma í 50 ár.

Vísindamennirnir segja að niðurstöður ársins 2012 séu ákveðið viðvörunarmerki og kunni að gefa okkur vísbendingu um framtíð þar sem öfgar í veðri verði meiri og tíðari en við höfum þekkt til þessa.

Grænlandsjökull bráðnar.
Grænlandsjökull bráðnar. mbl.is/Rax
Losun koltvísýrings út í andrúmsloftið náði nýjum hæðum árið 2012, …
Losun koltvísýrings út í andrúmsloftið náði nýjum hæðum árið 2012, eftir stutt samdráttarskeið í kjölfar kreppunnar. AFP
Hafís úti fyrir Vestfjörðum og Norðurlandi.
Hafís úti fyrir Vestfjörðum og Norðurlandi. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina