2% vatn var að finna í jarðvegssýnum á Mars

Líkan af Mars-könnunarfarinu Curiosity.
Líkan af Mars-könnunarfarinu Curiosity. AFP

Fyrstu jarðvegssýnin sem Curiosity, könnunarvélmenni bandarísku geimferðarstofnunarinnar (NASA), sótti á plánetunni Mars hafa verið rannsökuð. Í ljós kom að um jarðvegurinn innihélt 2% vatn. 

Vísindamenn vonast til að þetta leiði til þess að í framtíðinni verði hægt að útvega geimförum, sem verða mögulega sendir í könnunarleiðangra til rauðu plánetunnar, vatn.

„Við töldum að Mars væri afar þurr eyðimörk og þrátt fyrir að þetta sé ekki nándar nærri eins mikið vatn og þú finnur í jarðvegi á Jörðinni, þá er þetta töluvert,“ segir Laurie Leshin, sem fer fyrir rannsókninni, í vísindaritinu Science.

Hún segir að mögulega sé hægt að ná um hálfum lítra af vatni úr 0,03 kúbikmetrum af jarðvegi á Mars, en það svipað til kubbs sem er um 30 cm á lengd, breidd og hæð. 

Geimferðastofnanir heimsins stefna ekki að því að senda mannað geimfar til Mars í náinni framtíð. Bandaríkin binda hins vegar við það vonir að það verði hægt að gera þá á fjórða áratug þessarar aldar.

Tekið skal fram að merki um að vatn sé að finna á Mars eru ekki ný tíðindi. Fyrri könnunarleiðangrar hafa fundið slík ummerki, þ.e. að mögulega hafi verið ís, neðanjarðarlindir og jafnvel drykkjarhæft vatn að finna á Mars fyrir milljörðum ára. 

En nýjustu fréttirnar þykja merkilegar í ljósti þess að Curiosity, sem lenti á Mars árið 2012, er búið fullkomnasta rannsóknarbúnaði sem hefur nokkru sinni verið sendur til plánetunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert