„Strax“ getur verið teygjanlegt hugtak

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. Alþingi.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. Alþingi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Það hljómaði sérkennilega í eyrum margra þegar Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, svaraði því til í Kastljósi að þegar kæmi að stórum málum eins og Landspítalanum væri „strax“ teygjanlegt hugtak.

Samhengið var það að Vigdís hafði í aðdraganda kosninga ítrekað sagt að eitt forgangsmála Framsóknarflokksins væri að færa 12-13 milljarða aukalega í rekstur Landspítalans. Í fjárlagafrumvarpinu er hinsvegar annað uppi á teningnum.

Þessi skilningur Vigdísar á orðinu strax stangast sjálfsagt á við málvitund flestra, emn íslensk orðabók skilgreinir hugtakið svo: 1) undireins, þegar í stað, 2) bráðum, 3) nýlega.

Merkingin bundin samhengi og aðstæðum

Vísindavefur Háskóla Íslands birtir í dag svar Eyju Margrétar Brynjarsdóttur heimspekings, við fyrirspurn Arnbjörns Ólafssonar um hvort „strax“ sé teygjanlegt hugtak. Þar eru færð rök fyrir því að í ákveðnu samhengi geti strax verið teygjanlegt.

Eyja Margrét bendir m.a. á að merkingin sé bundin samhengi og aðstæðum. Orðið „strax“ hafi merkingu sem sé afstæð við tímann sem það er látið falla á. „Ég kem strax“ sagt af einhverjum árið 1814 vísi þannig til annarrar manneskju og annars tíma en „Ég kem strax“ haft eftir einhverjum í dag á þessari stundu.

Gagnkvæmur skilningur á samhenginu lykilatriði

Auk þess skipti máli hvers konar atburð eða athöfn verið sé að tala um sem á að fara fram strax. Eyja Margrét nefnir sem dæmi að staðhæfingin „sjúkrabíllinn kemur strax“ vísi vonandi til einhvers sem gerist innan fáeinna mínútna. „Strax verður hafist handa við smíði nýrrar geimrannsóknarstöðvar,“ vísi hins vegar til lengra tímabils.

Í þessum skilningi megi því segja að „strax“ sé teygjanlegt hugtak. Í ljósi þessa tekur Eyja Margrét fram að þegar orðið „strax“ er notað sé mikilvægt að gagnkvæmur skilningur sé á samhenginu sem það er notað í, til að tryggja árangursrík tjáskipti.

Kjósendur ættu kannski að hafa þetta í huga, næst þegar stjórnmálamenn í kosningaham lofa einhverju „strax“.

Sjá ítarlegra svar á Vísindavefnum

Frumvarp stuttbuxnastráka í matadorleik

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert