Skrefi nær sjálfbærum kjarnasamruna

Hiti og geisli sólarinnar stafa af kjarnasamruna sem verður vegna …
Hiti og geisli sólarinnar stafa af kjarnasamruna sem verður vegna samþjöppunar í miðju hennar. Útfjólublá mynd tekin af NASA 14. september 1999. Ljósmynd/NASA

Bandarískir vísindamenn segjast hafa náð mikilvægum áfanga í átt að því markmiði að beisla kjarnasamruna til sjálfbærrar orkunýtingar. Kjarnasamruni er öflugasta orkulind sólkerfisins, frá slíku ferli stafa geislar og hiti sólar. Virkjun kjarnasamruna gæti því orðið ódýr og ótæmandi orkulind nái vísindamenn tökum á henni.

Til þess að af þeirri framtíðarsýn verði þarf þó að búa þannig um að kjarnaofnar framleiði meiri orku en þeir nýta. Það hefur til þessa ekki reynst gerlegt og beislun þessarar miklu orkulindar því enn utan seilingar mannsins.

Stærsti áfanginn í áraraðir

Vísindamenn við bandarísku stofnunina National Ignition Facility (NIF) í Kaliforníu segjast nú hafa gert uppgötvun sem færi þá skrefi nær þessu markmiði. NIF notast við 192 geisla frá öflugasta leysigeislatæki heims til að hita og þjappa saman vetniskjörnum þar til þeir renna saman.

BBC segi nú frá því að í tilraun sem framkvæmd var við stofnunina í lok september hafi orkulosun náð að fara umfram það orkumagn sem brennt var til að framkalla kjarnasamrunann. Sé það rétt mun það vera í fyrsta sinn sem þetta tekst.

Að sögn BBC er þessu lýst sem stærsta áfanganum sem náðst hafi í áraraðir í kjarnorkurannsóknum. Vísindamenn hafi áratugum saman reynt að beisla kjarnasamruna án árangurs.

Í samkeppni við kjarnavopn um fjármagnið

Vísindamenn við NIF stofnunina settu sér árið 2009 það yfirlýsta markmið að ná að beisla kjarnasamrunann með þessum hætti fyrir 30. september 2012. Tæknileg vandamál og rangir útreikningar urðu þó til þess að það náðist ekki.

Í kjölfarið var dregið úr áherslunni á rannsóknir á kjarnasamruna og aukinn kraftur settur í rannsóknir á kjarnorkuvopnum, í samræmi við upphaflega starfslýsingu stofnunarinnar. BBC segir þó líklegt að þessi nýjasti árangur vísindamannanna verði til þess að þeir fái aukið fjármagn á ný til að rannsaka kjarnasamruna til orkunýtingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert