Höfuðkúpan sem kollvarpar kenningunum

Vísindamenn í Georgíu sýndu í gær 1,8 milljóna ára höfuðkúpu sem fannst í landinu. Þeir segja að fundurinn geti kollvarpað kenningum um þróun mannsins.

Höfuðkúpan fannst í bænum Dmanisi, um 100 kílómetra frá höfuðborginni Tíblisi. Hún er mjög heilleg og sú best varðveitta sem fundist hefur frá þessu tímabili.

Brot úr fjórum öðrum höfuðkúpum fundust á sama svæði. Þykir fundurinn sanna að maðurinn hafi á þessum tíma verið af einni og sömu undirtegundinni, en ekki af nokkrum ólíkum tegundum.

Höfuðkúpan er smá eða um þriðjungur af stærð höfuðkúpu fullvaxins nútímamanns. Hún er nú geymd í náttúruminjasafni Georgíu.

Niðurstöður rannsókna vísindamannanna voru birtar í vísindatímaritinu Science á fimmtudag. Rannsóknin tók um átta ár og var unnin í samvinnu vísindamanna frá Georgíu og öðrum löndum. Höfuðkúpan fannst árið 2005.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert