Fjarlægasta vetrarbrautin fundin

Vetrarbrautin er býsna langt í burtu. Myndin er úr safni.
Vetrarbrautin er býsna langt í burtu. Myndin er úr safni. AFP

Stjörnufræðingar hafa með aðstoð Hubble-sjónaukans fundið vetrarbraut sem er í um 30 milljarða ljósára fjarlægð. Vísindamenn segja að þetta sé fjarlægasta vetrarbrautin frá jörðu. Hún heitir því grípandi nafni z8_GND_5296.

Vísindamenn rannsaka nú vetrarbrautina sem er sögð varpa ljósi á það tímabil sem fylgi beint í kjölfar stóra hvells.

Eftir að stjarnfræðingar höfðu komið auga á vetrarbrautina í Hubble-sjónaukanum var fjarlægðin staðfest í Keck stjörnuathugunarsstöðinni á Havaí. 

Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins, að niðurstöður rannsóknarinnar hafi verið birtar í vísindaritinu Nature

Það tekur ljós afar langan tíma að berast til jarðar frá ytri jöðrum alheimsins og vetrarbrautin birtist því vísindamönnunum eins og hún var fyrir 13,1 milljarði ára.

Steven Finkelstein, við háskólann í Austin í Texas, sem fer fyrir rannsókninni, segir að þetta sé sú vetrarbraut sem búið sé að staðfesta að sé fjarlægust frá jörðu. „Við sjáum þessa vetrarbraut eins og hún var um 700 milljón árum eftir stóra hvell,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert