NASA sendir MAVEN til Mars

Bandaríska geimferðarstofnunin (NASA) skaut ómannaðri geimflaug, sem nefnist MAVEN, á loft í dag, en henni er ætlað að rannsaka lofthjúp plánetunnar Mars. Hún á m.a. að leita að vísbendingum hvers vegna Mars, sem er nágranni Jarðarinnar, kólnaði og allt vatn hvarf af yfirborði hnattarins.

Eldflaug var gerðinni Atlas V 401 flutti geimferjuna, sem kallast á ensku Mars Atmosphere and Volatile EvolutioN (MAVEN), út fyrir gufuhvolf jarðar klukkan 18:28 í kvöld að íslenskum tíma, eða 13:28 að staðartíma í Bandaríkjunum.

„Allt lítur vel út,“ sagði stjórnstöð NASA í kjölfar eldflaugarskotsins. 

Það mun taka geimferjuna um 10 mánuði að komast til mars. Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins að geimskotið hafi kostað 671 milljón dala, sem samsvarar um 81 milljarði króna. 

Búist er við að MAVEN verði komin til rauðu plánetunnar, eins og Mars er gjarnan kölluð, í september á næsta ári. Geimflaugin, sem gengur fyrir sólarorku, mun hefja vísindastörf um það bil tveimur mánuðum síðar. 

Þetta er ólíkt fyrri könnunarferðum NASA á Mars, því að þessu sinni munu þeir ekki einblína á jarðveginn á Mars heldur verður reynt að afhjúpa leyndardóma lofthjúpsins, en hann hefur aldrei verið rannsakaður. 

Verkefni MAVEN mun standa yfir í eitt ár. Stærstur hluti þess tíma fer í að hringsóla um hnöttinn í um 6.000 km hæð. 

Geimfarið mun hins vegar lækkað flugið verulega í fimm skipti, eða niður í 125 km hæð, en tilgangurinn er að framkvæma mælingar í ólíkri hæð. 

Geimflaugaskotið átti sér stað á Kanaveralhöfða í Flórída í dag.
Geimflaugaskotið átti sér stað á Kanaveralhöfða í Flórída í dag. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert