Kynlíf kvenna hefur breyst meira en karla

Kynlíf hefur tekið umtalsverðum breytingum á undanförnum 60 árum. Mestar breytingar hafa orðið á því hvernig konur lifa kynlífi. Kynhegðun þeirra verður æ líkari kynhegðun karla, m.a. hvað varðar fjölda rekkjunauta og kynferðislega virkni fram eftir aldri.

Þetta er meðal niðurstaðna úr umfangsmestu rannsókn sem gerð hefur verið á kynlífi fólks í Bretlandi í 20 ár. Greint er frá niðurstöðunum í fagtímaritinu Lancet, en eins og mbl.is sagði frá fyrr í dag kom m.a. í ljós að lífstíll nútímamannsins virðist draga úr kynlöngun fólks m.a. vegna þess að það velur frekar að fikta í spjaldtölvunni eða snjallsímanum uppi í rúmi á kvöldin. 

Aukið jafnræði milli kynjanna

Rannsóknin, National Surveys of Sexual Attitudes and Lifestyles (Natsal) var gerð í þriðja sinn á tímabilinu 2010-2012, en hún var áður gerð á árunum 1990-1991 og 1999-2001. Þátttakendur í þetta sinn voru yfir 15.000 íbúar Bretlands á aldrinum 16-74 ára.

Á 10. áratugnum fjölgaði bólfélögum gagnkynhneigðra að meðaltali, og þeim fjölgaði líka sem sögðust hafa átt einhverja kynlífsreynslu með sama kyni.

Á fyrsta áratug þessarar aldar hefur fjöldi bólfélaga hjá körlum nokkurn veginn staðið í stað, en konur eru hins vegar farnar að stunda kynlíf með fleirum en áður. Munurinn í kynhegðun kynjanna er því að minnka, eftir því sem fram kemur í Lancet.

Þannig höfðu karlar í byrjun 10. áratugarins að meðaltali sofið hjá 8,6 konum en konur höfðu sofið hjá 3,7 körlum að meðaltali. Um aldamótin áttu karlar að meðaltali 12,6 bólfélaga en konur 6,5.  Í nýjustu könnuninni áttu karlar að meðaltali 11,7 bólfélaga, en konur 7,7.

Fleiri konur stunda kynlíf með sama kyni

Í fyrstu könnuninni fyrir rúmum 20 árum sögðust aðeins 4% kvenna og 6% karla hafa stundað kynlíf með einstakling af sama kyni. Lítil breyting hefur orðið hjá körlum að þessu leyti en hjá konum hefur hlutfallið fjórfaldast, því samkvæmt nýjustu könnuninni hafa 16% kvenna og 7% karla hafa stundað kynlíf með einstakling af sama kyni.

Fram kemur í Lancet að á síðustu 60 árum hafi teygst verulega úr því tímabili sem líður milli þess sem fólk byrjar fyrst að stunda kynlíf og þar til það stofnar til sambúðar og eignast sitt fyrsta barn.

Þá hefur aldur minna að segja en áður um það hvort fólk lifir virku kynlífi. Í aldurshópnum 65 til 74 ára sögðust 40% kvenna og 60% karla hafa stundað kynlíf einhvern tíma síðasta árið.

Fólk heldur því áfram að stunda kynlíf fram eftir aldri, en kynlífsathafnirnar eru nokkuð mismunandi eftir aldursskeiðum. Í öllum aldurshópum eru legganga-samfarir algengar en endaþarmsmök eru algengust í yngsta aldurshópnum, 16-24 ára og munnmök eru algengust hjá fólki á aldrinum 25-34 ára og 35-44 ára.

Yfir 60% allra aðspurðra sögðust ánægð með sitt kynlíf.

Brotið á mun fleiri konum en körlum

Loks má geta þess að 1,4% aðspurðra karla, eða 1 af hverjum 71, sagðist hafa verið þvingaður til kynferðisathafna gegn vilja sínum. Hjá konum var hlutfallið mun hærra, eða 9,8% sem þýðir að 1 af hverjum 10 konum hafði verið þvinguð til kynferðisathafna gegn vilja sínum.

Þá kemur jafnframt fram að þeir sem brotið hafði verið á kynferðislega voru líklegri en aðrir til að hafa upplifað slæma líkamlega og andlega heilsu, þar á meðal þunglyndi eða önnur geðræn vandamál og minni kynlöngun undanfarið ár.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar má sjá á vef Lancet

mbl.is