Heil beinagrind risaeðlu á uppboði

Afar fágæt beinagrind risaeðlu seldist á uppboði í Bretlandi í dag, fyrir 400.000 pund eða sem nemur tæpum 79 milljónum króna. Risaeðlan, sem gengur undir nafninu Misty, er 150 milljóna ára gamall steingervingur. Nýr eigandi hyggst sýna hana almenningi.

Misty var af tegundinni diplodocus longus, einni stærstu dýrategund sem nokkurn tíma hefur gengið á Jörðu. Í lifanda lífi var hún 17 metra löng og 6 metra há. Örfáir steingervingar af þessari tegund hafa fundist. Á Náttúrugripasafninu í London (Natural History Museum) er að finna beinagrind sem sett var saman úr líkamsleifum tveggja skepna.

Misty fannst í Wyoming í Bandaríkjunum árið 2009. Steingervingafræðingurinn Raimund Albersdoerfer hafði lengi stýrt verkefni um leit að leifum risaeðla á svæðinu. Það voru hinsvegar tveir ungir synir hans, Benjamin og Jacob, sem fundu Misty, eða öllu heldur risastórt bein.

Það tók 9 vikur að grafa beinagrindina alla úr jörðu. Henni var síðan raðað saman á rannsóknarstofu í Hollandi. 

Talsmaður seljenda segir að mikil vinna liggi að baki og því sé ánægjulegt að selja hana í dag. Ekki er uppgefið hver kaupandinn er, en hann mun ætla að sýna hana opinberlega þegar fram líða stundir.

Beinagrind risaeðlunnar Misty, af tegundinni diplodocus longus, seldist á uppboði …
Beinagrind risaeðlunnar Misty, af tegundinni diplodocus longus, seldist á uppboði Summers Place Auctions í Suður-Englandi í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert