Byggði sína eigin A380 ofurþotu

Skjáskot úr myndbandinu sem birt var á Youtube. Vel sést …
Skjáskot úr myndbandinu sem birt var á Youtube. Vel sést hversu stórt flugvélamódelið af A380 ofurþotunni er. Skjáskot/Youtube

Þýski módelsmiðurinn Peter Michel varði fimm þúsund vinnustundum á átta mánaða tímabili í smíði fjarstýrðs flugvélamódels sem er nákvæm eftirlíking af Airbus A380 ofurþotunni. Vélin er tæpir fimm metrar að lengd, vænghaf hennar rúmir fimm metrar en þrátt fyrir það vegur hún aðeins um sjötíu kíló.

Myndband af því þegar ofurþotan, sem merkt er Singapore Airlines, tekst á loft og er lent mjúklega aftur á flugsýningu í Sviss var birt á myndbandavefnum YouTube í byrjun október og hefur verið skoðað nærri þremur milljón sinnum síðan þá. Jukust vinsældir myndbandsins mikið þegar Singapore Airlines birti það á Facebook-síðu sinni á dögunum.

Evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus hefur framleitt 115 eintök af A380 ofurþotunni, stærstu farþegaþotu heims, og afhent til viðskiptavina. Og alls hafa 259 slíkar þotur verið pantaðar hjá Airbus. Líkan Peters Michel af A380 er hins vegar það eina sem til er í heiminum. Og smíðin var ekki ódýr því fyrir utan vinnustundirnar þá kostaði hver fjögurra hreyfla vélarinnar 3.300 Bandaríkjadali, jafnvirði um fjögur hundruð þúsund íslenskra króna.

Þetta er ekki eina fjarstýrða flugvélamódelið sem Michel hefur gert um ævina en hann hefur meðal annars smíðað líkan af Concorde og svo öðrum farþegaþegaþotum Airbus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert