Tveimur milljónum lykilorða lekið á netið

Það er ekki skynsamlegt að sama lykilorðið sé notað fyrir …
Það er ekki skynsamlegt að sama lykilorðið sé notað fyrir mismunandi vefsíður. AFP

Tölvuþrjótar hafa birt á netinu lykilorð sem þeir komust yfir fyrir síður á borð við Facebook, Google og Yahoo. Um er að ræða rúmlega tvær milljónir stolinna lykilorða.

Frá þessu var greint á vef breska ríkisútvarpsins í gær. Haft er eftir öryggissérfræðingum að glæpasamtök hafi að öllum líkindum staðið á bak við birtinguna. 

Talið er að þrjótarnir hafi komist yfir upplýsingarnar í gegnum sýktar tölvur, þ.e. í gegnum óvinveittan hugbúnað sem skráði niður lykilorðin er notendur slógu þau inn á lyklaborð.

Ekki liggur fyrir um hversu gamlar upplýsingar er að ræða, en sérfræðingar benda aftur á móti á að það geti stafað hætta af úreltum upplýsingum.

„Við vitum ekki hversu mörg þessara lykilorða séu enn virk,“ segir Graham Cluley, sem er sérfræðingur á sviði netöryggismála, í samtali við BBC. „En við vitum að 30-40% fólks notar sama lykilorðið á mismunandi vefsíðum. Það er augljóslega eitthvað sem fólk á ekki að gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert