Íslenskur spurningaleikur fyrir android

Akureyrska nýsköpunarfyrirtækið Appia ehf. hefur hleypt af stokkunum nýjum spurningaleik fyrir snjallsíma sem nefnist 2know. Leikurinn gengur út á að spila spurningaleiki, búa til eigin spurningaleiki, með eða án mynda, og deila þeim leikjum með vinum eða öllum heiminum. Í leiknum verður einnig hægt að keppa um verðlaun í spurningaleikjum frá fyrirtækjum. Því er hægt að nota leikinn til að vinna til verðlauna, fræðast eða brjóta upp dautt partí með skemmtilegum leik, að því er segir í fréttatilkynningu.

Leikurinn er allur á íslensku og er í honum að finna spurningagrunn með yfir 10.000 spurningum í ýmsum flokkum, þar á meðal krakkaflokk.

Upphaf verkefnisins má rekja til Atvinnu- og nýsköpunarhelgarinnar sem haldin var á Akureyri í apríl. Þar lögðu forsvarsmenn verkefnisins, Matthías Rögnvaldsson, Björn Gíslason og Herdís Björk Þórðardóttir, fyrstu drög af leiknum og stofnuðu fyrirtækið Appia ehf. í framhaldinu utan um verkefnið. Verkefnið hlaut stuðning Vaxtasamnings Eyjafjarðar og kom fjárfestingasjóðurinn Tækifæri einnig að verkefninu. 2know leikurinn hefur verið helsta verkefni Appia frá stofnun og starfa hjá félaginu tveir starfsmenn í fullu starfi, Aron Skúlason og Sigurður Óli Árnason, en auk þeirra hafa Tómas Jóhannesson og Erla Rán Friðriksdóttir komið að gerð leiksins.

 Leikurinn sem kom út í dag er í fyrstu aðeins fáanlegur fyrir Android-stýrikerfið en hægt er að nálgast leikinn í Google Play Store. Gert er ráð fyrir því að strax í næsta mánuði verði iOS-útgáfa leiksins fáanleg. Í framhaldinu er síðan ráðgert að gefa út sérstaka skólaútgáfu af leiknum sem og útgáfu fyrir erlendan markað, segir í fréttatilkynningunni.

 Heimasíða: www.2know.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert