Yellowstone-ofureldstöðin geysistór

Hverasvæði í Yellowstone.
Hverasvæði í Yellowstone. mynd/Yellowstone-þjóðgarðurinn

Vísindamenn hafa komist að því að eldstöðin sem er undir Yellowstone-þjóðgarðinum í Bandaríkjunum sé mun stærri en áður var talið. Rannsókn hefur leitt í ljós að kvikhólfið sé um það bil 2,5 sinnum stærri en fyrri útreikningar bentu til. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.

Eldstöðin undir Yellowstone telst vera ofureldfjall (e. supervolcano). Í ofureldgosunum fara saman mikið magn gosefna og mikill styrkleiki; þau eru mjög efnismikil og efnið gýs upp á stuttum tíma, að því er fram kemur á vísindavefnum. 

Hópur vísindamanna komst að því að hólfið undir þjóðgarðinum sé yfir 90 km langt og er þar að finna á bilinu 200-600 rúmkílómetrar af gosefnum. 

Niðurstöðurnar verða birtar á ráðstefnu Sambands bandarískra jarðeðlisfræðinga sem fram í San Francisco.

Prófessorinn Bob Smith, sem starfar við háskólann í Utah, segir að menn hafi lengi verið þarna að störfum og talið að eldstöðin væri stærri. Þetta sé því afar merk uppgötvun.

Það myndi leiða til meiriháttar hamfara og eyðileggingar ef eldstöðin í Yellowstone myndi gjósa í dag. 

Síðasta risaeldgosið á jörðinni varð fyrir 640.000 árum. Þá dreifðist aska um alla Norður-Ameríku og hafði afleiðingar fyrir loftslag á jörðinni. 

Í dag telja vísindamennirnir sig hafa betri upplýsingar um það sem sé að undir jörðinni Þeir notuðu fjölmarga jarðskjálftamæla, sem eru staðsettir á víð og dreif í þjóðgarðinum, til að kortleggja kvikuhólfið. 

„Við skráðum niður jarðskjálfta sem urðu í og við Yellowstone, og við mældum jarðskjálftabylgjurnar,“ sagði Dr. Jamie Farrell. 

„Bylgjurnar ferðast hægar í gengum efni sem er heitt og að hluta til bráðið [...] Með þessum hætti getum við mælt það sem er fyrir neðan,“ bættir Farrell við. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert