Geti spáð fyrir um hæð gosmakkar

Eldgosið í Grímsvötnum.
Eldgosið í Grímsvötnum. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Fylgni var á milli hæðar gosmakkarins í eldgosinu sem varð í Grímsvötnum í maí árið 2011 og breytinga á þrýstingi í kvikuhólfi eldstöðvarinnar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem hópur vísindamanna við Háskóla Íslands, Veðurstofu Íslands og fimm erlenda háskóla gerði.

Rannsóknin var unnin undir forystu Sigrúnar Hreinsdóttur, dósents við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, og Freysteins Sigmundssonar, vísindamanns við Jarðvísindastofnun Háskólans, en fjallað er um niðurstöður hennar í nýrri útgáfu vísindatímaritsins Nature Geoscience. Niðurstöðurnar gætu nýst til þess að spá fyrir um hæð gosmakkar í eldgosum í framtíðinni og þannig meðal annars hjálpað til við að meta möguleg áhrif þeirra á flugsamgöngur samkvæmt fréttatilkynningu frá Háskóla Íslands.

„Fyrir gosið og meðan á því stóð fylgdust Sigrún, Freysteinn og samstarfsfólk náið með hreyfingum á svæðinu í kringum Grímsvötn með aðstoð GPS-mæla. Auk þess var hæð gosmakkarins metin út frá upplýsingum úr ratsjám og af ljósmyndum. Útreikningar sem vísindamennirnir hafa nú unnið leiða í ljós að fylgni var á milli hæðar gosmakkarins úr Grímsvötnum og landsigi við eldstöðina,“ segir í tilkynningunni

Þá segir að GPS-mælingar fyrir eldgosið hafi einnig sýnt að landið í kringum Grímsvötn hafi verið byrjað að hreyfast um klukkustund áður en eldstöðin gaus. „Það gefur vonir um að hægt verði í framtíðinni að nýta upplýsingar úr GPS-mælum til þess að spá fyrir um eldgos og þróun gosmakkar. Slíkt gæti komið að afar góðum notum við mat á hugsanlegum áhrifum eldgosa, m.a. á flugumferð, en bæði í eldgosinu í Grímsvötnum og í Eyjafjallajökli voru flugsamgöngur takmarkaðar um tíma vegna dreifingar öskunnar frá eldstöðvunum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert