Auðlindir heimsins eru ekki óþrjótandi

Kristín Vala Ragnarsdóttir prófessor
Kristín Vala Ragnarsdóttir prófessor mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þó að alheimurinn okkar virðist endalaus er því ekki svo farið með auðlindir jarðarinnar. Vísindamenn benda á að verði ekkert að gert verði þær uppurnar á þessari öld. Kristín Vala Ragnarsdóttir prófessor hefur ásamt hópi vísindamanna unnið með ríkisstjórn Bútan við að þróa nýja framtíðarsýn fyrir heiminn þar sem ekki er byggt á vergri landsframleiðslu heldur vellíðan og hamingju þegnanna.

Í áratugi hefur árangur þjóða verið reiknaður út frá vergri landsframleiðslu, eða GDP sem stendur fyrir gross domestic product. Í grein sem birtist í vísindatímaritinu Nature í dag eru færð rök fyrir því að endurskoða þurfi hvernig hagsæld er reiknuð út því sú stefna, að mæla árangur út frá vergri landsframleiðslu, hafi leitt til eyðileggingar náttúrunnar, eyðingar auðlinda og meiri misskiptingar auðs hjá þjóðum sem og á milli þjóða.

„Því meiri sem ójöfnuðurinn er þeim mun verri eru áhrifin á þjóðfélagið. Bæði þá sem eru mjög ríkir og þá sem eru mjög fátækir. Bilið á milli þeirra sem eru ríkir og þeirra sem eru fátækir stækkar stöðugt,“ segir Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og Stofnun Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun.

Notast eigi við aðra stuðla

Greinin í Nature er eftir tíu vísindamenn sem tilheyra ASAP-hópnum, samtökum um sjálfbærni og velmegun, en hópinn leiðir Robert Costanza, prófessor í visthagfræði við Þjóðarháskólann í Camberra í Ástralíu. Grein þeirra nefnist Time to leave GDP behind eða Tímabært að hætta að hugsa um verga þjóðarframleiðslu. ASAP-hópurinn mælir í greininni með því að mældir séu aðrir stuðlar sem beinast að velferð, vellíðan, velmegun og hamingju þjóðfélagsþegna.

„Eftir stóra fjármálavandann í kringum 1930 var farið í það að setja maskínuna í gang í Bandaríkjunum til þess að skapa störf og að mæla framleiðsluna í vergri landsframleiðslu. Til þess að geta verið með alla þessa framleiðslu þarf að nýta alls konar auðlindir. Þetta er það sem þjóðir nota til að mæla árangur sinn. Allar þær tölur sem við heyrum talað um í fréttunum byggjast á því sem fer í gegnum hagkerfið. Ef það verða gífurlegar náttúruhamfarir þá fer maskínan í gang við að reyna að laga það og það kemur líka fram í vergri landsframleiðslu. Þannig að þetta mælir ekki réttu hlutina,“ segir Kristín Vala.

Því þurfi að mæla aðra þætti, eins og kemur skýrt fram í grein hópsins.

Merkilegar áherslur í Bútan

Í konungsríkinu Bútan í Asíu hefur áhugavert starf verið unnið með hamingjustuðla.

„Konungurinn í Bútan sagði fyrir þrjátíu árum þegar hann var spurður af hverju það væri ekki meiri hagvöxtur í ríkinu svaraði hann því að það væri ekki stefna hans sem konungur að einblína bara á það heldur vildi hann frekar einblína á hamingju og vellíðan fólksins í landinu sínu,“ útskýrir hún.

Þegar hann hafði sagt þetta þurfti hann vissulega að gera eitthvað til að sýna fram á að hann væri að mæla þessa þætti.

„Þá fékk hann til sín, fyrir um tuttugu árum, fjölda sérfræðinga frá útlöndum til að hjálpa til við að setja upp hvernig þeir mæla þennan hamingjustuðul sem talað er um sem Gross National Happiness,“ segir Kristín.

Byrjað var að notast við hamingjustuðulinn fyrir alvöru fyrir um sex árum.

„Þar koma inn margir þættir sem tengjast sálfræðilegri vellíðan, heilsu, nýtingu tíma, menntun, menningarbreytileika, góðum stjórnarháttum, samfélagsgrósku, vistkerfabreytileika, viðmótsþrótti og lífskjörum. Allt kemur þetta inn í þennan stuðul og það er einmitt það sem við erum að segja í þessari grein, að við þurfum að fara að nota aðra stuðla og aðra áhersluþætti.“

Þessir stuðlar eru til og má sem dæmi nefna Genuine progress indicator eða framfarastuðulinn sem er einn af þeim sem hægt væri að notast við ásamt öðrum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert