Fundu kóralrif suður af Grænlandi

Frá Grænlandi.
Frá Grænlandi. mbl.is/Ómar

Kanadískir vísindamenn rákust fyrir tilviljun á kóralrif suður af Grænlandi samkvæmt því sem fram kemur í niðurstöðum nýrrar rannsóknar. Haft er eftir Helle Jorgensbye frá Tækniháskóla Danmerkur á fréttavefnum Thesudburystar.com að ólíkt kóralrifum á suðlægari slóðum verði grænlenska kóralrifið seint aðdráttarafl fyrir ferðamenn sem vilji stunda köfun þar sem mjög sterkir hafstraumar séu á svæðinu.

Kóralrifið fannst þegar vísindamenn um borð í kanadísku rannsóknaskipi voru á svæðinu í þeim tilgangi að taka sýni úr sjónum. Mælingarbúnaður hafi verið látinn síga niður í hafið á 900 metra dýpi. Þegar hann hafi verið dreginn upp aftur hafi komið í ljós að hann hafi orðið fyrir skemmdum og á honum fundust leifar af kórölum.

„Fyrstu viðbrögð vísindamannanna voru að bölva vegna skemmdanna sem urðu á búnaðinum og voru við það að kasta kóralleifunum aftur í hafið þegar þeir áttuðu sig sem betur fer á því hvað þeir voru með í höndunum,“ er ennfremur haft eftir Jorgensbye. Kóralrif sé að finna bæði við Ísland og Noreg þannig að það komi ekki mjög á óvart að finna eitt slíkt út af Grænlandi en engu að síður sé þörf fyrir frekari rannsóknir á rifinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert