Lestrarhestur í nær prentlausum heimi

Þeir Birgir, Ólaf og Benedikt hafa brallað margt gegnum tíðina. …
Þeir Birgir, Ólaf og Benedikt hafa brallað margt gegnum tíðina. Þeir eru samrýmdir eins og öll systkinin. mbl.is/Árni Sæberg

Að lesa af skjá getur reynst dálítið snúið, einkum og sér í lagi fyrir þá sem lesa hratt af spjaldtölvum og þurfa sífellt að renna fingri eftir skjánum. Systkinin Birgir, Ólaf, Sunneva og Benedikt vildu stuðla að því að lestrarhestar eins og þau sjálf beittu líkamanum rétt við lesturinn og bjuggu til app fyrir spjaldtölvur sem nefnist PDF-Readhorse eða PDF-lestrarhestur sem gerir lesturinn enn þægilegri.

Þai eru einstaklega samrýmd systkinin Benedikt, Birgir, Óli (Ólaf De Fleur) og Sunneva Jóhannesarbörn. Þó svo að þau séu ekki alltaf sammála frekar en önnur systkini, þá ríkir gagnkvæm virðing á milli þeirra og traust. Þess vegna þótti þeim gráupplagt að vinna saman að hugmyndinni PDF-Readhorse.

„Óli bróðir átti frumhugmyndina að þessu og speglaði til okkar hinna,“ segir Birgir. Sjálfur er hann iðnaðarverkfræðingur og sá um að verkefnastýra allri vinnunni í kringum appið góða. Ólaf er kvikmyndagerðarmaður og leikstjóri sem les gríðarlega mikið, að sögn Birgis, Sunneva er grafískur hönnuður og bjó til alla grafík og icon í appinu. Benedikt sá um allt er tengdist textanum og yfirlestri hans.

Að bogra við lesturinn

Það var sem fyrr segir fyrst og fremst af heilsufarsástæðum sem hugmyndin að appinu kviknaði. „Appið sjálft kemur hreint og beint út af því að við lesum mikið af PDF og herðablöðin á mér voru farin að standa út því maður var hokinn yfir iPad eða tölvunni. Ég lærði mikið í vinnuhollustufræði í námi mínu í Þýskalandi,“ úrskýrir Birgir þegar hann er spurður út í hugmyndina. „Við vildum einfaldlega getað lesið án þess að vera bogin í baki. Stundum er maður til dæmis að borða meðan maður les og stundum vill maður geta verið í ræktinni með iPadinn fyrir framan sig. Textanum er hlaðið inn úr tölvupósti eða beint af tölvunni þegar maður er búinn að tengja iPadinn við. Svo fer maður og les og stillir alltaf hraðann og forritið skrollar niður á meðan maður les. Þetta rúllar svona eins og Teleprompter,“ segir Birgir um þetta stórsniðuga forrit sem hlaða má niður í Appstore eða með því að skanna qr-kóðann hér til hliðar.

„Við erum stöðugt að færast nær prentlausum heimi og okkur fannst þetta vera næsta skref í að lesa af skjá því að við lesum svo mikið og stöndum vitlaust. Við vildum geta staðið bein í baki og þurfa ekki að vera að beygja okkur fram. Við hugsuðum að þetta gæti verið gott fyrir þá sem læsu mikið og sérstaklega námsfólk. Forritið átti bara að hafa þennan eina skýra tilgang sem er losa fólk við þessa þörf að rúlla handvirkt niður einhvern texta og vera með eitthvað sem gerir þetta fyrir þig,“ segir Birgir.

Þurfa að hafa efni á að tapa

Systkinin hafa brallað eitt og annað gegnum tíðina. Þeir Ólaf og Birgir hafa farið í fjölda bakpokaferðalaga og eru þessa dagana að klippa kvikmyndina Borgríki II - Blóð hraustra manna. Þrátt fyrir að systkinin hafi mörg járn í eldinum hafa þau alltaf gætt sín að eyða ekki um efni fram.

„Við baukum ekkert í dag nema við höfum efni á að tapa því. Þess vegna héldum við okkur við stífa fjárhagsáætlun,“ segir Birgir.

Við vinnsluna komu upp fjölmargar hugmyndir að útfærslum og fleiri viðbótum við appið en systkinin ákváðu að leyfa þessu að fara af stað og leyfa PDF-Readhorse að sanna sig alla vega í eitt ár áður en þau færu að bæta fleiri möguleikum við.

Það hljómar afar skynsamlega enda þótt freistingin hljóti að hafa verið nokkur þegar hugmyndaflugið komst á fullt að koma með ýmsar aukaútfærslur. En þeim tókst að halda sig við áætlunina.

„Við gerum þetta með allt sem við gerum. Við höfum breyst mikið í því hvernig við notum peninga og hvernig við sjáum þá koma til baka. Þetta er eitt af því sem við fengum tækifæri til að læra eftir 2007,“ segir Birgir Jóhannesson, einn fjögurra systkina sem bjuggu til PDF-Readhorse.

Mjög náin en samt ólík

Þau Benedikt, Birgir, Ólaf og Sunneva eru náin systkin að sögn Birgis. „Það er eðlilegt að fólk deili dálítið en við erum búin að gera það, og þá er ég samt ekki að meina í illu eða eitthvað langvarandi, en okkur tókst að skilja þetta sem sumir ná að skilja og aðrir ekki,“ segir Birgir. Tvær manneskjur leggja misjafnan skilning í orð þriðja aðila.

„Þegar við áttuðum okkur á þessu þróaðist gagnkvæm virðing og skilningur. Þegar maður áttar sig á að hinn leggur annan skilning í hlutina en maður sjálfur fer maður að verða dálítið forvitinn og hættir að setja fólk í box. Þess vegna höfum við systkinin hvatt hvort annað mikið. Í samskiptum í dag er ég til dæmis mjög forvitinn,“ útskýrir Birgir, enda sannarlega forvitnilegt að heyra skilning annarra.

Readhorse fyrir iPad.
Readhorse fyrir iPad. mbl.is
Merki PDF Readhorse sem Sunneva Jóhannesdóttir hannaði.
Merki PDF Readhorse sem Sunneva Jóhannesdóttir hannaði. mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »