Tæknin eykur nánd í samböndum

AFP

Tæknin styrkir tengsl milli giftra para jafnvel þó að hún geti einnig verið uppspretta spennu í sambandinu. Þetta er niðurstaða nýrrar bandarískrar könnunar.

Í könnun Pew kemur fram að 21% giftra eða sambúðarfólks segir að samskipti í gegnum netið og sms færi það nær makanum.

Eitt af hverjum fjórum pörum segist senda maka sínum skilaboð jafnvel þótt báðir séu heima við. Þá segjast 9% hafa leyst erfið rifrildi í gegnum netið eða með sms-skilaboðum. 

En könnunin leiddi einnig í ljós að tæknin getur skapað spennu í sumum samböndum.

25% segja að farsíminn hafi truflandi áhrif á samverstundir með makanum. Þá segjast 8% rifist við makann vegna þess tíma sem hann eyddi á netinu.

42% 18-29 ára sem eru í alvarlegu sambandi segja að makinn hafi einhvern tímann verið annars hugar vegna farsímans. 41% fólks í sama aldurshópi segjast finna meiri nánd við maka sinn vegna netsins og símans.

„Tæknin er úti um allt og í samböndum okkar einnig,“ segir Amanda Lenhart, sem starfar hjá Pew. „Og hjá ungu fólki og þeim sem eru í nýjum samböndum hafa tæki eins og farsímar og samfélagsmiðlar skipt máli frá upphafi. Hvort sem það er gott eða slæmt.“

Könnunin leiddi einnig í ljós að tveir af hverjum þremur sem eru í sambandi deila lykilorðum að samskiptamiðlum með maka sínum. Fjórða hvert par segist hafa sameiginlegt netfang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert