Bráðsmitandi Wi-Fi veira

Að sögn vísindamannanna stafar heimilum og litlum fyrirtækjum aðallega ógn …
Að sögn vísindamannanna stafar heimilum og litlum fyrirtækjum aðallega ógn af tölvuveirunni. AFP

Vísindamönnum við háskólann í Liverpool í Bretlandi hefur tekist að búa til tölvuvírus sem hægt er að dreifa í gegnum þráðlaust net, Wi-Fi, ekki ósvipað því þegar kvefbakteríur dreifast á milli manna.

Breska ríkisútvarpið fjallar um málið. Þar segir að á þéttbýlum svæðum þar sem mörg þráðlaus net séu í boði geti veiran dreift sér á milli frá einu neti yfir í annað í leit að veikleikum í kerfunum.

Þegar veiran, sem hefur verið kölluð Kameljónið, hefur náð stjórn á þráðlausu neti á sitt vald þá verða þær tölvur sem eru tengdar viðkomandi neti berskjaldaða gagnvart ýmiskonar hættum.

Alan Marshall, sem er prófessor í fjarskiptakerfum við háskólann, segir að unnið sé að gerð hugbúnaðar sem ætlað er að sporna gegn slíkum árásum. Hann segir að menn leggi fremur á það áherslu að samþætta aðgangsstaði með eftirlitskerfi sem tekur eftir slíkum boðflennum en að menn noti öflug lykilorð.

Marshall vildi ekki tjá sig í smáatriðum um þær aðferðir sem væru notaðar til að sporna gegn árásum á raunveruleg fórnarlömb. Hann sagði hins vegar að aðferðin hefði verið sannreynd innan háskólans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert