Sá sem á upplýsingarnar hefur völdin

Julian Assange, stofnandi WikiLeaks
Julian Assange, stofnandi WikiLeaks Mynd/AFP

Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, kom fram á kvikmynda og ljósvakahátíðinni SXSW í Texas í Bandaríkjunum. Fyrirlestur Assanges var haldinn í gegnum Skype en Assange er staddur í sendiráði Ekvadors í Lundúnum eftir að Ekvadorar veittu honum pólitískt hæli árið 2012. 

Í fyrirlestri sínum sagði hann að þróunin í eftirlitsiðnaði væri svo hröð að brátt yrði hægt að fylgjast með ferðum allra jarðarbúa í rauntíma. „Búnaðurinn til þess að fylgjast með ferðum allra jarðarbúa er næstum því orðinn nægilega góður nú þegar en hann verður örugglega fullkomnaður á innan við tveimur árum,“ sagði hann við fundargesti. 

Assange fjallaði einnig um dvöl sína í sendiráðinu og líkti henni við fangelsisvist. Upphaflega átti hann að taka við spurningum úr sal en svo kaldhæðnislega vildi til að tæknin stríddi fundarhaldara og því var ekki hægt að koma spurningum áleiðis til hans. 

Hann nýtti fyrirlesturinn einnig til þess að gagnrýna fyrirtækin Facebook og Google fyrir stefnu sína í persónuverndarmálum. „Það á sér stað gríðarleg eignatilfærsla frá almennum borgurum til þeirra sem þegar eiga mikil auðæfi og völd. Það er gert með því að stela persónuupplýsingum fólks. Sá sem á upplýsingarnar hefur völdin.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert