Fílar bera kennsl á mannsraddir

Fílafjölskylda í Etosha þjóðgarðinum í Namibíu.
Fílafjölskylda í Etosha þjóðgarðinum í Namibíu. AFP

Fílar eru greindar skepnur. Nú er komið í ljós að þeir bera kennsl á mannsraddir og gera greinarmun á milli þjóðernis, kyns og aldurs þeirra sem tala. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar þar sem raddupptökur voru spilaðar fyrir Afríkufíla.

Í ljós kom að dýrin sýndu mest óttaviðbrögð þegar þau heyrðu raddir fullorðinna karlmanna úr Masai-ættbálkinum í Austur-Afríku. Masai-fólkið er hirðingjar og lendir stundum í átökum við fíla. Vísindamenn telja að Afríkufílar hafi tamið sér að hlusta sérstaklega eftir röddum þeirra til þess að geta forðast þá.

Niðurstöður rannsóknarinnar eru birtar í vísindaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences, en BBC greinir einnig frá þeim á vef sínum.

Forðast þá sem bjóða Masai-manni far

Höfundar rannsóknarinnar eru Karen McComb og Graeme Shannon, vísindamenn við Sussex háskóla í Bretlandi. Þau segja hugmyndina að rannsókninni hafa komið frá niðurstöðum fyrri tilrauna, sem sýndu að fílarnir gátu greint hvort ljónsöskur kom úr barka karl- eða kvendýrs.

Þá hafa fyrri rannsóknir bent til þess að fílar sýni óttaviðbrögð finni þeir lykt af Masai-fólki og jafnvel þegar þeir sjá hefðbundin klæði þeirra, sem eru skærrauð að lit. 

„Ég hef upplifað þetta sjálfur,“ segir McComb í samtali við BBC. „Ef þú gefur Masai-manni far þá geturðu séð að fílarnir bregðast öðruvísi en ella. Þeir eru varari um sig gagnvart bílnum og það sést að þeir þefa meira og leggja betur við hlustir.“

Gera greinarmun milli ólíkra ættbálka

Fílar hafa afar næma heyrn og McComb vildi komast að því hvort þeir beiti þessu öfluga skilningarviti til að greina mögulega ógn frá mannfólki. Í rannsóknarskyni voru gerðar hljóðupptökur af Masai-fólki, bæði körlum, konum og börnum. Öll voru þau látin segja á eigin tungu: „Sjáðu, sjáðu þarna, það er fílahjörð að koma.“

Til samanburðar fengu vísindamennirnir fólk af Kamba-ættbálkinum til að segja það sama á sínu tungumáli. Ólíkt Masai-hirðingjunum stundar Kamba-fólkið landbúnað og lendir því sjaldan saman við fíla.

Þegar hljóðupptökurnar voru spilaðar í námunda við fílahjarðir kom í ljós að þær sýndu meiri óttaviðbrögð þegar heyrðist í röddum Masai-manna, en þegar Kamba-fólkið talaði. Þeir hörfuðu burt frá hljóðinu og þéttu raðirnar. Skýrustu óttaviðbrögðin komu þegar raddir fullorðinna Masai-karlmanna voru spilaðar, en fílarnir sýndu minni viðbrögð við röddum kvenna og barna.

Mannskepnan hættulegasta rándýrið

Athygli vakti að jafnvel þótt tíðni hljóðupptökunnar væri hækkuð, þannig að karlmannsraddir líktust kvenröddum, þá brugðust fílarnir samt eins við. Vísindamennirnir segja þetta benda til þess að fílar noti aðrar aðferðir en við til að greina kyn mannsradda.

McComb segir niðurstöðurnar jafnframt til marks um að fílar reyni að laga sig að þeirri ógn sem mennirnir eru. „Mannskepnan er án nokkurs vafa hættulegasta og ófyrirsjáanlegasta rándýrið sem fílarnir þurfa að glíma við í dag,“ segir hún.

Afríkufíll í Amboseli þjóðgarðinum, um 220 km suðaustur af Nairobi, ...
Afríkufíll í Amboseli þjóðgarðinum, um 220 km suðaustur af Nairobi, höfuðborg Kenýa. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina