Halastjarna mun nær strjúkast við Mars

Leið Siding Spring í átt að sólinni. Á morgun verður …
Leið Siding Spring í átt að sólinni. Á morgun verður hún upp við Mars.

Halastjarna á stærð við lítið fjall mun næstum því strjúkast við Mars. Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, vonast til að ná myndum af þessu. Um er að ræða eintakt atvik sem gerist aðeins á milljón ára fresti.

Halastjarnan er kölluð Siding Spring (C/2013 A1) og mun fara upp að plánetunni og verður hún næst henni á morgun, um kl. 18.27 að íslenskum tíma.

Ekki er talin hætta á að hún muni lenda í árekstri við Mars en stjörnufræðingar vonast til að hún fari það nálægt að hægt verði að fræðast um uppruna sólkerfisins.

Talið er að halastjarnan sé margra milljarða ára gömul og hafi orðið til Oort-skýinu sem er í útjaðri sólkerfis okkar.

„Halastjörnur eins og C/2013 A1 eru í raun skítugir snjóboltar úr ís sem ryk og grjót hefur fest við,“ segir Dan Brown, stjörnufræðingur við Nottingham Trent-háskólann.

„Hún er nú í fyrsta sinn á ferð að miðju sólkerfisins og efni hennar gætu gefið okkur vísbendingu um samsetningu sólkerfisins sem varð til fyrir 4,6 milljörðum ára.“

Það sem er einnig merkilegt við halastjörnuna, sem er um 1,6 kílómetrar í þvermál, er að hún er laus í sér, nánast úr dufti. 

 NASA hefur fært geimför sín sem eru á sporbaugi um Mars frá staðnum þar sem halastjarnan mun fara um. Þetta er gert svo þau skemmist ekki en mikið geimryk fylgir stjörnunni. 

Tveir geimjeppar eru á Mars, Forvitni og Tækifæri, og munu þeir báðir beina myndavélum sínum að halastjörnunni og senda myndir til jarðar. 

Ekki er langt síðan halastjarnan uppgötvaðist. Það gerði Robert McNaught, sem starfar við áströlsku geimvísindastöðina Siding Spring, í janúar árið 2013.

Ekki er talið að hægt verði að sjá halastjörnuna við Mars frá jörðu með berum augum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert