Mögulegt Marsfar tilbúið

Orion-geimfarið tilbúið í Kennedy-geimmiðstöðinni í Flórída.
Orion-geimfarið tilbúið í Kennedy-geimmiðstöðinni í Flórída. NASA

Bandaríska geimvísindastofnunin NASA lauk smíði Orion-geimfars síns í dag. Til stendur að það fari í jómfrúarferð sína í byrjun desember. Orion er fyrsta geimfarið sem hannað er til að flytja menn út í geiminn, út fyrir braut tunglsins, og jafnvel einn daginn til Mars.

Áformað er að fyrsta tilraunaferðin verði farin 4. desember og verður hún ómönnuð. Ferðin mun taka um fjóra og hálfa klukkustund og mun Orion mest fara í tæplega 5.800 kílómetra fjarlægð frá jörðu. Til samanburðar er fjarlægðin á milli jarðarinnar og tunglsins að meðaltali um 384.400 kílómetrar. Engu að síður verður þetta lengsta ferðalag sem mannað geimfar hefur farið í fjörutíu ár.

„Þetta er bara fyrsti [leiðangurinn] af því sem verður löng röð tilraunaleiðangra út fyrir lága sporbraut um jörðu og eftir nokkur ár munum við senda geimfara okkar til staða sem menn hafa aldrei upplifað. Það er spennandi að taka þátt í ferðalaginu núna í upphafi,“ segir Bill Hill, aðstoðarumsjónarmaður þróunar könnunarkerfa hjá NASA á vefsíðu stofnunarinnar.

Ætlunin er að nota tilraunaferðin til að prófa þau kerfi sem mikilvægust eru fyrir öryggi á borð við rafeindatæki, hæðarstjórnun, fallhlífar og hitaskjöldinn enda á Orion að geta komið mönnum út í geim, haldið þeim á lífi og komið þeim aftur til jörðu heilum á húfi. Hitaskjöldurinn er ekki hvað síst mikilvægur enda verður geimfarið á rúmlega 32.000 kílómetra hraða á klukkustund þegar það kemur aftur inn í lofthjúp jarðarinnar. Hitinn sem kemur til með að myndast þegar farið þjappar loftinu saman fyrir framan sig mun nema rúmlega 2.200°C.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert