Þessi fyrirsögn er villandi

AFP

Ný áströlsk rannsókn hefur staðfest að flestir lesa bara fyrisagnir frétta eða meðtaka í það minnsta litlar upplýsingar úr þeim utan fyrirsagnanna, smelludólgum til mikillar ánægju. Þessu greinir Science of Us frá.

Vísindamenn sýndu 51 háskólanema fjórar stuttar greinar. Ein greinin var t.a.m. um erfðabreytt matvæli og í henni var komið inn á ýmsar skoðanir um málið og áhyggjur almennings af öryggi slíkra matvæla auk þess sem vitnað var í lækna sem sögðu meðal annars „Það er engin rökrétt ástæða fyrir því að hafa áhyggjur af heilnæmi þeirra.“

Sumir nemanna fengu greinina afhenta með fyrirsögninni „Erfðabreytt matvæli gætu valdið langtíma áhættu gagnvart heilsufari,“ en aðrir fengu fyrirsögnina „Erfðabreytt matvæli eru hættulaus“.

Þeir sem sáu fyrri fyrirsögnina mundu meira um hugsanlegar áhættur tengdar matvælunum en það að þau væru örugg.

Vísindamennirnir segja að rannsókn þeirra, ólíkt öðrum rannsóknum á sama sviði, byggist á fyrirsögnum sem eru ekki alrangar. Þess í stað hefur sannleikanum bara verið snúið aðeins svo fyrirsögnin er ekki röng heldur aðeins villandi eins og svo oft er raunin með smellubeitu-fyrirsagnir samtímans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert