Yfir 400 huldunetum lokað

Europol

Sautján voru handteknir og yfir 400 huldunetum lokað, þar á meðal Silk Road 2.0, í sameiginlegri aðgerð lögregluyfirvalda í 16 Evrópulöndum og Bandaríkjunum. Huldunetin áttu það öll sameiginlegt að vera nýta sér þjónustu Tor og að ekki væri hægt að finna á hefðbundnum leitarvélum.

Þúsundir vefja sem selja eiturlyf, hýsa barnaníð og starfsemi öfgahópa, nýta sér þjónustu Tors.

Samkvæmt frétt BBC og tilkynningu frá Europol er lokun hulduvefjanna nú talin gríðarlega mikilvæg í baráttunni gegn tölvuglæpum.

Meðal þeirra sem voru handteknir er Blake Benthall, sem er talinn höfuðpaurinn á bak við Silk Road 2.0, markaðstorg viðskipta með ólögleg fíkniefni. Vefurinn var settur á laggirnar í október í fyrra eftir að upprunalega Silk Road vefnum var lokað og eigandi hans handtekinn.

Í aðgerðinni nú var einnig lagt hald á mikið magn Bitcoins gjaldmiðilsins eða sem nemur einni milljón Bandaríkjadala.

Samkvæmt BBC er aðgerðin ekki bara mikilvæg í að uppræta tölvuglæpi heldur einnig tæknilega séð því lögregla beitti nýrri tækni til þess að elta uppi hulduvefina auk þess sem breið samstaða var um verkefnið meðal lögregluyfirvalda í þeim ríkjum sem tóku þátt. 

Þau ríki sem tóku þátt auk Bandaríkjanna eru: Búlgaría, Tékkland, Finnland, Frakkland, Þýskaland, Ungverjaland, Írland, Lettland, Litháen, Lúxemborg, Holland, Rúmenía, Spánn, Svíþjóð, Sviss og Bretland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert