Philae lent á halastjörnunni

Mynd sem OSIRIS-myndvél Rosettu tók af Philae í kveðjuskyni.
Mynd sem OSIRIS-myndvél Rosettu tók af Philae í kveðjuskyni. ESA/Rosetta/MPS

Geimfar frá jörðinni hefur lent í fyrsta skipti á halastjörnu. Vísindamenn evrópsku geimstofnunarinnar ESA fengu rétt í þessu staðfestingu frá móðurfarinu Rosettu að lendingarfarið Philae hafi lent heilu og höldnu á halastjörnunni 67P/​Churyumov-Gerasimenko. 

„Við erum fyrst til að gera þetta og það afrek kemur til með að vara að eilífu,“ sagði Jean Jacques Dordain, framkvæmdastjóri ESA, þegar ljóst var að Philae væri lent og næði sambandi við jörðu í gegnum Rosettu.

Á Twitter-síðu ESA kom fyrst fram að staðfest væri að skutull sem á að festa Philae við yfirborð halastjörnunnar hafi virkað og dregið hana að landi. Nú eru hins vegar merki um að hann hafi ekki skotist út en farið sé þó í góðu standi. Verið sé að kanna möguleikann á að skjóta skutlinum niður úr farinu til að festa það rækilega við halastjörnuna.

„Ég held að Evrópa hafi rétt í þessu farið með djörfung þangað sem enginn hefur áður farið,“ sagði Anne Glover, yfirvísindamaður ESA, á Twitter og vísaði þar til frægra orða úr Star Trek-þáttunum og kvikmyndunum.

Rosettu og Philae var skotið á loft 2. mars árið 2004 en undanfarin tíu ár hefur farið notað þyngdarkrafta reikistjarnanna í sólkerfinu til að slengja sér áfram alla leið til halastjörnunnar. Alls hafa þær stöllur ferðast um 6,4 milljarða kílómetra á þessum tíu árum. Komust þær á braut um 67P/​Churyumov-Gerasimenko  6. ágúst.

Leiðir Rosettu og Philae skildu í morgun kl. 8:35 þegar Philae byrjaði að svífa niður að yfirborði halastjörnunnar. Tók ferðin þangað alls sjö klukkustundir en engar eldflaugar voru notaðar til þess að stjórna flugi Philae. Var farið einfaldlega látið falla niður úr um 22,5 kílómetra hæð niður á yfirborðið.

Hægt er að fylgjast með beinni útsendingu frá evrópsku geimstofnuninni ESA hér.

Á Twitter-síðu Philae segist farið komið með nýja kennitölu: 67P.

mbl.is