Vongóðir þrátt fyrir erfiðleika

Samsett mynd frá móðurfarinu Rosettu af yfirborði halastjörnunnar sem tekin …
Samsett mynd frá móðurfarinu Rosettu af yfirborði halastjörnunnar sem tekin var á miðvikudag. Menn reyna nú að komast að því hvar lendingarfarið Philae lenti nákvæmlega. ESA

Vísindamenn evrópsku geimstofnunarinnar ESA hafa tvo glugga til að hafa samskipti við lendingarfarið Philae áður en rafhlöður þess klárast á morgun. Þeir binda þó vonir til að breytingar á sólarstöðunni á halastjörnunni eða breytingar á henni sjálfri verði til þess að Philae fái meira sólarljós. 

Philae fær mun minna sólarljós en menn höfðu reiknað með. Rafhlöður þess höfðu orku í 60 klukkustundir eftir lendingu og klárast þær að óbreyttu á morgun. Hlaða átti rafhlöðurnar með sólarorku en þar sem farið virðist hafa lent í skugga klettaveggs hefur það ekki gengið sem skyldi.

Á stöðufundi í morgun sagði Paolo Ferri, aðgerðastjóri ESA, að síðasti glugginn til að gefa Philae skipanir væri í kvöld þegar samband næst aftur við farið. Tveir gluggar eru á dag til þess að ná sambandi við Philae og náðu menn sambandi við farið í morgun. Verið er að kanna hvaða áhrif rannsóknir sem settar voru í gang í gærkvöldi hafa haft á stöðu farsins. Síðar í dag lokast samskiptaglugginn en annar opnast í kvöld. Ef ekkert hefur breyst í dag verður það síðasta tækifærið til að gefa Philae skipanir til að freista þess að klára sem mest af vísindatilraunum hennar.

Klárist rafhlöður Philae er Ferri þó ekki úrkula vonar um að breyting á afstöðu halastjörnunnar gagnvart sólinni eða virkni á yfirborði hennar gæti valdið því að farið fái meira sólarljós og lifni aftur við síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert