Kortlögðu dreifingu koltvísýrings

Skjáskot úr myndbandinu. Líkanið sýnir hvernig koltvísýringur dreifðist um andrúmsloftið …
Skjáskot úr myndbandinu. Líkanið sýnir hvernig koltvísýringur dreifðist um andrúmsloftið frá janúar 2006 til desember 2006. NASA/skjáskot

Bandaríska geimvísindastofnunin NASA hefur birt myndskeið sem sýnir glöggt hvernig gróðurhúsalofttegundin koltvísýringur dreifist um lofthjúp jarðarinnar sem byggir á nýju og nákvæmu tölvulíkani. Styrkur gassins hefur aldrei verið meiri í andrúmsloftinu í nútímasögu jarðarinnar en nú.

Vísindamönnum við bandarísku geimvísindastofnunina NASA hefur tekist að kortleggja dreifingu gróðurhúsalofttegundarinnar koltvísýrings um lofthjúp jarðarinnar með nákvæmari hætti en áður hefur verið mögulegt. Magn koltvísýrings í lofti hefur verið mælt á jörðu niðri um áratugaskeið en í sumar skaut NASA á loft gervihnettinum OCO-2 sem kannar það frá geimnum.

Tölvulíkanið nú er allt að 64 sinnum nákvæmara en þau líkön sem menn hafa hingað til geta gert af dreifingu koltvísýrings í andrúmslofti jarðarinnar. Í því má fylgjast með hvernig lofttegundin þeytist um andrúmsloftið með vindáttum frá þeim stöðum sem hún er losuð. Þá sést umtalsverður munur á dreifingunni eftir norður- og suðurhveli jarðar og einnig sveiflur sem eru háðar vaxtarferli plantna á milli árstíða.

„Jafnvel þó að koltvísýringurinn hafi alvarlegar afleiðingar á heimsvísu er heillandi að fylgjast með hvernig staðbundin losun og veðrakerfi skapa stigvaxandi styrk hans á mjög staðbundnum svæðum. Líkön á borð við þetta, ásamt gögnum frá athugunum, munu hjálpa okkur að bæta skilning okkar á bæði losun manna á koltvísýringi og náttúrulegum sveiflum um allan heim,“ segir Bill Putman, yfirvísindamaður við verkefnið hjá Goddard-geimrannsóknastöð NASA í Maryland-ríki í Bandaríkjunum.

Enn margt á huldu um hvernig koltvísýringur dreifist

Líkanið nefnist „Náttúrukeyrsla“ (e. Nature run) en það keyrir saman gögn um aðstæður í andrúmsloftinu, losun gróðurhúsalofttegunda bæði af völdum manna og náttúrunnar og birtir með myndrænum hætti. Gögnin sem keyrð voru nú eru frá maí 2005 til júní 2007.

Nú í vor fór styrkur koltvísýrings í fyrsta skipti yfir 400 hluta af milljón í andrúmsloftinu yfir norðurhveli jarðar í nútímasögu hennar. Losun gróðurhúsalofttegunda sem valda hnattrænni hlýnun og loftslagsbreytingum heldur áfram að aukast ár eftir ár, aðallega vegna bruna jarðefnaeldsneytis.

Þrátt fyrir mikilvægi koltvísýrings í þessum breytingum liggur enn margt á huldu um hvernig gasið dreifist frá losunarstöðum og hvernig það er tekið upp af höfum og skógum jarðar. Líkön á borð við þetta ásamt öðrum athugunum gefa mönnum dýpri skilning á hvernig gróðurhúsalofttegundir dreifast og safnast saman í lofthjúpnum. Það gæti gert mönnum kleift fyrir að gera nákvæmari spár um hvernig loftslag jarðar kemur til með að þróast.

Hér fyrir neðan má sjá myndband úr líkaninu sem sýnir hvernig koltvísýringur dreifðist um lofthjúpinn árið 2006.

Frétt á vef NASA um tölvulíkanið

mbl.is