Eldvirkni veldur ekki hvarfi jökla

Hop Breiðamerkurjökuls hefur á síðustu tíu árum verið það mikil …
Hop Breiðamerkurjökuls hefur á síðustu tíu árum verið það mikil að Jökulsárlón, sem liggur við rætur jökulsins, hefur stækkað gífurlega. Þegar myndir Loftmynda eru skoðaðar sést að stækkun lónsins jafngildir tvö- til þreföldu Seltjarnarnesi. Loftmyndir

Búist er við að íslenskir jöklar muni rýrna með auknum hraða á næstu áratugum og verði orðnir helmingi minni en þeir eru í dag um aldamótin. Eldvirkni undir jöklunum veldur aðeins broti af bráðnun þeirra en aðalástæða rýrnunarinnar er hnattræn hlýnun, að sögn Helga Björnssonar, prófessors emeritus við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

Gervihnattamyndir bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA af Mýrdalsjökli voru birtar á mbl.is í fyrradag. Þær sýna glöggt hversu mikið jökullinn hefur rýrnað á undanförnum þrjátíu árum. Helgi segir myndirnar sláandi en allir jöklar á Íslandi rýrni nú hratt, einkum eftir árið 1995.

„Þetta er sama sagan á Mýrdalsjökli og Vatnajökli og öllum stóru jöklunum. Margir smájöklar eru orðnir mjög rýrir,“ segir hann.

Jöklarnir voru almennt stærstir í kringum 1890 undir loks þess tímabils sem nefnt hefur verið Litla-ísöldin. Þá hafði verið að jafnaði kuldatíð allt frá 13. öld. Þeir byrjuðu hins vegar ekki að rýrna að ráði fyrr en í kringum árið 1920. Helgi segir að þá hafi þeir rýrnað hratt fram undir 1940 en þá hafi hægt á hopi þeirra. Í kringum 1970 hafi einstaka jöklar jafnvel bætt við sig án þess þó að ná upp í fyrri stærð.

„Svo í kringum 1995 hraðóx rýrnun jökla hér á landi og hefur haldist mjög hröð síðan. Þeir hafa margir hopað 50 og jafnvel 100 metra á ári. Annað sem lýsir því enn betur er að þeir hafa þynnst um svona einn metra að jafnaði á hverju einasta ári, að meðaltali yfir þá alla,“ segir Helgi.

Hverfa á einni til tveimur öldum

Eins og gefur að skilja er þetta gríðarlega mikið magn af ís sem tapast á hverju ári, um tíu milljarðar tonna af vatni. Jöklarnir eru að jafnaði um 300-400 metra þykkir á ári. Haldi þessi hraða rýrnun áfram endast þeir ekki lengi.

„Menn telja reyndar að það muni herða á rýrnuninni á næstu áratugum því það mun hlýna enn frekar, jafnvel svo að það verði orðið tveimur gráðum hlýrra við lok þessarar aldar en nú er. Þá verður helmingur af jöklunum farinn um næstu aldamót miðað við hvernig þeir eru núna. Haldi hlýnunin áfram á sama hraða hverfa jöklarnir hreinlega hér á landi eftir eina til tvær aldir,“ segir Helgi.

Syðstu hlutar Vatnajökuls eins og Breiðamerkurjökull og Skeiðarárjökull sem liggja lágt munu hverfa fyrst. Eins þeir jöklar sem fara niður á láglendi í Austur-Skaftafellssýslu. Lengst verði ís á norðurhluta Vatnajökuls í kringum Bárðarbungu þar sem landið undir er hátt.

Aðeins 2-3% bráðna við eldgos

Þrátt fyrir að margir íslenskir jöklar liggi ofan á eldstöðvum segir Helgi að eldvirkni tengist alls ekki rýrnun þeirra. Hún skýrist af loftslagsbreytingum.

„Eldgos geta farið illa með jökla en það er mjög staðbundið. Ef gýs undir jökli er lítill hluti sem bráðnar. Það eru ekki nema örfá prósent af allir bráðnun hér á landi, kannski 2-3%, sem kemur frá eldvirkni þegar litið er yfir lengri tíma og meðaltal yfir allt landið,“ segir Helgi.

Þjóðir heims hafa sett sér það markmið að halda hnattrænni hlýnun innan við tvær gráður. Illa hefur þó gengið að ná alþjóðlegu samkomulagi sem skuldbindur ríkisstjórnir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í löndum sínum. Miðað við núverandi losun verður hlýnun jarðar á þessari öld tvær gráður og jafnvel meiri.

„Ég held að menn séu almennt búnir að missa vonina um að það takist að halda hlýnun innan við tvær gráður við lok aldarinnar. Það er þegar komið það mikið af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið að hlýnunin mun halda áfram í marga áratugi jafnvel þótt menn gætu stöðvað losunina núna. Ég held að spáin hljóti að vera sú að meginjöklarnir allir helmingist á þessari öld,“ segir Helgi.

Miklar breytingar á Mýrdalsjökli

Helgi Björnsson, prófessor emeritus við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.
Helgi Björnsson, prófessor emeritus við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.
mbl.is