Himininn myndi loga

Mynd listamanns af hvernig risasvartholið í hjarta dvergvetrarbrautarinnar M60-UCD1 gæti …
Mynd listamanns af hvernig risasvartholið í hjarta dvergvetrarbrautarinnar M60-UCD1 gæti litið út. NASA, ESA, STScI-PRC14-41a

Stjörnufræðingar hafa fundið óvenjulegt fyrirbæri á ólíklegum stað með Hubble-geimsjónaukanum. Gríðarlega stórt svarthol, fimm sinnum stærri en það sem er í hjarta vetrarbrautar okkar, er í miðju einnar minnstu vetrarbrautar sem menn þekkja.

Dvergvetrarbrautin M60-UCD1 er ein þéttasta vetrarbraut sem fundist hefur. Þar eru 140 milljónir sólstjarna í vetrarbraut sem er aðeins 300 ljósár að þvermáli. Það er aðeins einn fimmhundraðasti hluti af þvermáli vetrarbrautarinnar okkar. Frá þessu er sagt á Facebook-síðu bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA en þar var haldið upp á svartholsföstudag í gær.

Væri maður staddur á reikistjörnu í þessari dvergvetrarbraut myndi stjörnuhimininn loga með ljósi að minnsta kosti milljón stjarna sem sjáanlegar væru með berum augum. Til samanburðar er hægt að sjá um það bil fjögur þúsund stjörnur með berum augum frá yfirborði jarðarinnar.

Svartholið er talið verið um fimm sinnum massameira en risasvartholið sem er í hjarta vetrarbrautarinnar okkar. Fundurinn bendir til þess að til sé fjöldi þéttra vetrarbrauta í alheiminum sem innihalda risasvarthol. Hann gefur einnig vísbendingar um að dvergvetrarbrautir geti í raun verið leifar stærri vetrarbrauta sem hafa rifnað í sundur í árekstrum við aðrar stjörnuþokur frekar en að þær séu litlar eyjur í geimnum þar sem stjörnur og svarthol hafa myndast í einangrun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert