Menn gætu flogið á Títan

Stilla úr stuttmyndinni sem sýnir geimfara stökkva fram af hæsta ...
Stilla úr stuttmyndinni sem sýnir geimfara stökkva fram af hæsta kletti sólkerfisins á Míröndu, tungli Úranusar sem sést í bakgrunni. Erik Wernquist

Þó að menn hafi þegar kannað flesta afkima jarðarinnar eru ósnortin landssvæði fyrir landkönnuði framtíðarinnar enn að finna á öðrum hnöttum í sólkerfi okkar. Menn gætu einn dagið flogið vængjum þöndum undir eigin afli á tunglinu Títan eða gengið á ísskorpu Evrópu eins og sést í stórbrotinni stuttmynd sænsks leikstjóra. 

Myndin sem ber titilinn „Ferðalangar“ (e. Wanderers) sýnir mögulega framtíð mannkyns sem hefur tileinkað sér geimferðir innan sólkerfis okkar. Undir hljóma orð stjörnufræðingsins Carls Sagan um könnunarþrána sem býr í brjósti manna.

Í stuttmyndinni sjást menn vappa um ísilagt yfirborð Evrópu, fylgitungls Júpíters, fylgjast með bláu sólarlaginu á rauðu reikistjörnunni Mars og svífa á vængjum um lofthjúp Títans, tungls Satúrnusar.

Allt er þetta líklega í fjarlægri framtíð en menn hafa nú þegar byrjað að kanna þessa staði með könnunarförum undanfarin ár og áratugi. Cassini-geimfarið hefur til að mynda rannsakað Títan undanfarin ár en það er eina tunglið í sólkerfinu sem er með lofthjúp. Lendingarfarið Huygens sveif jafnframt niður í lofthjúpinn árið 2005 og tók fyrstu og einu myndina hingað til frá yfirborði Títans. Þar er talið að úthöf og stöðuvötn úr metani sé að finna.

Hugmyndin um að menn gætu flogið undir eigin afli á Títan er heldur ekki alveg úr lausu lofti gripin. Eins og kemur fram á XKCD, vefsíðu Randalls Munroe, fyrrverandi stafsmanns bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA, er lofthjúpurinn á Títan fjórum sinnum þykkari en á jörðinni en þyngdarkrafturinn er minni en tunglsins okkar. Þetta þýddi að með þar til gerðum búnaði gætu menn hafið sig á loft með því að ganga rösklega af stað. Þeir þyrftu hins vegar að vera vel búnir enda er hitastigið við yfirborð Títans undir -200°C.

Hafa mikinn áhuga á leiðangri til Evrópu

Evrópa er eitt tungla gasrisans Júpíters, stærstu reikistjörnu sólkerfis okkar, sem menn hafa mikinn áhuga á. Talið er að mikið haf séð að finna undir ísskorpu tunglsins. Jarðhiti á hafsbotninum gæti mögulega viðhaldið einhvers konar lífi í þessum framandi vötnum.

Hingað til hafa menn aðeins flogið fram hjá Evrópu með könnunarförum eins og Galileo og Voyager-geimförunum. Geimvísindamenn hafa hins vegar mikinn áhuga á að skipuleggja leiðangur til ístunglsins og hafa slíkar hugmyndir fengið byr undir báða vængi undanfarið.

Hugmyndin væri jafnvel að bora niður í gegnum ísskorpuna til að leita að lífi í hafinu fyrir neðan. Nýjustu gögn benda til þess að einhverja gosvirkni sé að finna á yfirborðinu en það myndi létta leiðangur til Evrópu mikið því þá þyrfti lendingarfarið ekki endilega að bora sig í gegnum skorpuna.

Hér fyrir neðan má sjá stuttmynd Svíans Eriks Wernquist af ævintýrum manna í sólkerfinu. Þar sjást geimfarar meðal annars stökkva fram af Verona Rupes-klettunum á Míröndi, tungli Úranusar, sem eru hæstu klettar sem vitað er um í sólkerfinu. Frá toppi klettsins niður til yfirborðsins eru að minnsta kosti fimm kílómetrar. Vegna þess hversu þyngdarkraftur tunglsins er veikur myndi það taka tólf mínútur fyrir mann að falla niður. Með þrýstiflaugum gæti hann jafnvel lent mjúklega.

Hægt er að fræðast nánar um það sem fyrir augu ber í myndinni á vefsíðu Wernquists.

Setja stefnuna á Evrópu

Mynd Cassini af Títan árið 2005. Yfirborð tunglsins sést ekki ...
Mynd Cassini af Títan árið 2005. Yfirborð tunglsins sést ekki fyrir þykkum lofthjúpnum. NASA
mbl.is

Bloggað um fréttina

Vélbörur
Það er ekkert sem stoppar þennan nema klaufaskapur. Skoðaðu öll tækin á www.har...
Frímerkjasafnarar
Frímerkjasafnarar Þýskur alvöru frímerkjasafnari vill komast í kynni við íslensk...
Tæki fyrir fjórhjólið
Fjölmörg tæki í boði fyrir fjórhjólið www.hardskafi.is...
Sumarhús í Biskupstungum, Velkomin...
Eigum laust í MAI - Leiksvæði og fallegt umhverfi. Stutt að Geysi, Gullfossi og ...