2014 heitasta árið hingað til

Umhverfisverndarsinnar hvetja þjóðir heims til dáða þar sem þær reyna …
Umhverfisverndarsinnar hvetja þjóðir heims til dáða þar sem þær reyna að koma sér saman um loftslagssáttmála í Perú. AFP

Bráðabirgðatölur Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) benda til þess að 2014 verði heitasta árið, bæði á láði og legi, frá því að mælingar hófust. Niðurstöðurnar fyrir fyrstu tíu mánuði þessa árs eru í samræmi við Haf- og loftslagsstofnun Bandaríkjanna sem gaf út sömu spá fyrir skömmu. Tölurnar miðast við fyrstu tíu mánuði þessa árs.

Meðalhitastig á jörðinni fer hækkandi vegna stöðugrar losunar gróðurhúsalofttegunda með bruna á jarðefnaeldsneyti. Hafa hitamet á heimsvísu verið slegin ár eftir ár frá upphafi þessarar aldar.

„Fjórtán af fimmtán hlýjustu árunum sem mælingar ná til eru á 21. öldinni. Það sem við sjáum árið 2014 er í samræmi við það sem við búumst við með breyttu loftslagi,“ segir Michel Jarraud, framkvæmdastjóri WMO.

Viðræður standa nú yfir í Líma í Perú um alþjóðlegt samkomulag um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Christina Figueres, loftslagsstjóri Sameinuðu þjóðanna, segir að þessar niðurstöður sýni enn frekar fram á nauðsyn þess að samstaða náist á milli þjóða heims. Ekki hefur tekist að ná heildrænu samkomulagi þrátt fyrir tuttugu ár af tilraunum til þess.

„Loftslagið okkar er að breytast og á hverju ári eykst hættan á öfgafullum veðurfyrirbrigðum og áhrifum á mannkynið,“ segir Figueres.

Embættismenn frá um tvö hundruð löndum munu næstu tvær vikurnar reyna að negla niður samkomulag um að draga úr losuninni nógu hratt til þess að hlýnun jarða fari ekki yfir 2°C miðað við meðalhitastig fyrir iðnbyltinguna. Að óbreyttu stefnir í að hlýnunin verði mun meiri með ófyrirséðum afleiðingum fyrir íbúa jarðarinnar.

Frétt The Guardian af niðurstöðum Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert