Gammablossar gætu hafa valdið aldauða

Gammablossi.
Gammablossi.

Mögulegt er talið að gammablossar, öflugustu sprengingar í alheiminum, hafi valdið einhverjum af aldauða dýrategunda á jörðinni síðasta milljarð ára. Niðurstöður vísindamanna sem hafa reiknað út líkurnar benda til þess að líf gæti aðeins hafa kviknað í 10% vetrarbrauta vegna sprenginganna.

Gammablossar eru orkuríkustu sprengingar alheimsins. Talið er að þeir eigi sér stað þegar gríðarlega massamiklar stjörnur springa sem sprengistjörnur eða við árekstur tveggja svonefndra nifteindastjarna. Sprengingin sendir skammlífan en gríðarlega orkuríkan blossa gammageislunar frá snúningsási sprengistjörnunnar út í geiminn. Blossarnir eru svo öflugir að á allt frá millísekúndum til nokkurra mínútna gefa þeir frá sér eins mikla orku og sólin okkar gerir á öllu lífskeiði sínu sem er um tíu milljarðar ára.

Ef gammablossi ætti sér stað í Vetrarbrautinni okkar gæti það valdið miklum hamförum á jörðinni en snúningsás hans sneri að okkur, jafnvel þó hann ætti sér stað í þúsunda ljósára fjarlægð. Gammageislarnir myndu líklega ekki fara svo greiðlega í gegnum lofthjúp jarðarinnar að þeir myndu brenna yfirborðið en myndu skaða andrúmsloftið og eyða ósonlaginu sem verndar okkur fyrir útfjólubláu ljósi sólarinnar. Það gæti valdið aldauða lífs á jörðinni.

Einnig er talið mögulegt að gammablossar séu uppspretta svonefndra geimgeisla, orkuríkra agna, sem gætu valdið einhverju í líkingu við kjarnorkusprengingu skyllu þeir á jörðinni í miklu magni.

Gæti hafa valdið aldauða fyrir 440 milljónum ára

Útreikningar vísindamanna undir forystu Tsvi Piran, eðlisfræðings við hebreska háskólann í Jerúsalem, benda til þess að um helmingslíkur séu á því að gammablossar hafi valdið fjöldaútrýmingu lífs á jörðinni á undanförnum 500 milljónum ára, 60% á síðasta milljarði ára og 90% á síðustu fimm milljörðum ára. Til samanburðar er sólkerfið okkar um 4,6 milljarða ára gamalt.

Það bendir til þess að gammablossar gætu hafa valdið einhverri af fimm umfangsmiklum útrýmingartímabilum dýrategunda á jörðinni sem þurrkuðu lífið næstum út, til dæmis aldauða á ordóvísíumtímabilinu fyrir 440 milljónum ára.

Öflugustu gammablossarnir eiga sér þó yfirleitt stað í stjörnuþokum sem eru frábrugðnar Vetrarbrautinni okkar. Yfirleitt verða þeir í dvergvetrarbrautum sem innihalda lítið af frumefnum sem eru þyngri en vetni og helíum. Veikari gammablossar eiga sér stað um fimm sinnum oftar en þeir öflugari. Vísindamennirnir telja að þeir hefðu takmörkuð áhrif á líf á jörðinni og að gammablossar sem eigi sér stað utan Vetrarbrautarinnar ógnuðu jörðinni líkast til ekki.

Möguleikar til lífs í alheiminum gætu hins vegar hafa takmarkast af völdum gammablossa. Vísindamennirnir reiknuðu út að vegna nálægar við slíkar sprengingar sé mögulegt að líf hafi aðeins getað kviknað í um 10% vetrarbrauta í alheiminum. Áætlað hefur verið að á bilinu 100-200 milljarða vetrarbrauta sé að finna í alheiminum. Það myndi því þýða að líf hefði engu að síður verið mögulegt í á öðrum tug milljarða vetrarbrauta sem hver er talin innihalda hundruð milljarða sólkerfa.

Frétt um möguleg tengsl gammablossa og aldauða á jörðinni á Livescience

Grein um gammablossa á Stjörnufræðivefnum

mbl.is