Norrænar konur sigldu líka

Frá víkingahátíð. Deilt hefur verið um þjóðerni landsnámsmanna á Íslandi. …
Frá víkingahátíð. Deilt hefur verið um þjóðerni landsnámsmanna á Íslandi. Því hefur verið haldið fram að norrænir menn hafi tekið með sér keltneskar konur til Íslands. Ómar Óskarsson

Samanburðarrannsóknir á erfðaefni Norðmanna sem voru uppi fyrir um þúsund árum og nútímamanna benda til þess að norrænir menn sem námu land á Íslandi hafi haft norrænar konur með sér. Fyrri rannsóknir höfðu bent til þess að þeir hefðu tekið mér sér keltneskar konur hingað til lands.

Norskir og sænskir vísindamenn við háskóla í Stokkhólmi, Ósló og Uppsölum rannsökuðu erfðaefni í 950-1.200 ára gömlum beinagrindum sem grafnar hafa verið upp í Noregi á undanförnum 135 árum. Hópurinn bar síðan erfðaefnið saman við sýni úr nútímamönnum frá Noregi, Bretlandi, Íslandi og öðrum Evrópuþjóðum.

Samanburðurinn leiddi í ljós að mikil líkindi voru á milli norrænu mannanna og núverandi íbúa á Íslandi og skosku eyjunum Hjaltlandseyjum og Orkneyjum. Þetta bendir til þess að fornnorrænar konur hafi verið með í för þegar þessi lönd voru numin. Fyrri kenningar, meðal annars rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar frá árinu 2001, hafa gert ráð fyrir að víkingarnir hafi ferðast einir og átt börn með konum sem þeir nauðguðu á svæðum sem þeir réðust á. Þannig hefðu íslensku landnámsmennirnir tekið með sér keltneskar konur þegar þeir settust að hér á landi.

„Það er rétt að talið er að víkingarnir hafi haft með sér heimakonur en DNA-gögnin í þessari rannsókn og íslensku rannsókninni benda til þess að norrænar konur hafi tekið þátt í landnáminu. Þetta stangast nokkuð á við þá sýn á ferðir víkinganna að skortur á konum heima fyrir hafi verið ástæða þeirra,“ segir Erika Hagelberg við Háskólann í Ósló.

Maja Krzewinska frá Háskólanum í Stokkhólmi segir þá niðurstöðu rannsóknarinnar að norskir menn hafi tekið með sér norskar konur þegar þeir námu land á Íslandi og skosku eyjunum rími vel við ritaðar heimildir frá þeim tíma.

Frétt á vefnum History.com um rannsókn skandínavísku vísindamannanna

mbl.is