Endurgerði frægustu mynd sína

Stólpar sköpunarinnar í Arnarþokunni (Messier 16).
Stólpar sköpunarinnar í Arnarþokunni (Messier 16). NASA/ESA og Hubble

Frægasta mynd Hubble-sjónaukans er eflaust mynd sem nefnd hefur verið Stólpar sköpunarinnar og sjónaukinn tók árið 1995. Nú tuttugu árum síðar hefur Hubble tekið nýja og enn skýrari mynd af fyrirbærinu sem er hluti af Arnarþokunni þar sem stjörnur eru að verða til.

Myndanir sem þessar eru algengar í stjörnumyndunarsvæðum en stólparnir í Arnarþokunni, eða Messier 16, eru myndrænastir, að því er segir í grein á Stjörnufræðivefnum. Mynd Hubbles af stólpunum frá árinu 1995 hefur þannig birst í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, á bolum og sængurfötum og jafnvel frímerkjum.

Arnarþokan er í um 6.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stólparnir þrír eru í raun gas- og rykský þar sem stjörnur eru að myndast. Sólin okkar varð hugsanlega til á sambærilegan hátt fyrir 4,6 milljörðum ára.

Veðrast af völdum öflugra sólvinda

Stólparnir eru þó ekki aðeins skapandi, heldur sýnir nýja myndin að þeir eru líka eyðileggjandi. Gas og ryk í stólpunum hitnar og skrælnar vegna orkuríks ljóss frá ungu stjörnunum innan í þeim. Stólparnir veðrast líka af völdum öflugra stjörnuvinda frá massamiklum stjörnum í nágrenninu. Bláa móðan eða mistrið í kringum stólpana á myndinni í sýnilegu ljósi er efni sem ungu björtu stjörnurnar hafa hitað og er að gufa upp.

Stjörnufræðingar geta notað nýju myndina til að rannsaka hvernig stólparnir breytast með tímanum. Mynd í innrauðu ljósi sem Hubble tók sýnir að ástæða þess að stólparnir eru til yfir höfuð er að topparnir eru mjög þéttir og skýla gasinu undir. Gasið milli stólpanna hefur fokið burt fyrir löngu vegna vinda frá nálægri stjörnuþyrpingu.

Efnismiklu stjörnurnar eru hægt og rólega að brjóta niður stólpana. Um leið eru þær líka ástæða þess að við sjáum þá yfir höfuð. Útfjólublátt ljós sem þær gefa frá sér lýsir upp skýið svo efni eins og súrefni, vetni og brennisteinn glóa.

Grein á Stjörnufræðivefnum um Stólpa sköpunarinnar

Mynd sem tekin var í innrauðu ljósi af Stólpunum.
Mynd sem tekin var í innrauðu ljósi af Stólpunum. NASA/ESA og Hubble
Samanburður á myndunum sem Hubble tók með tuttugu ára millibili. …
Samanburður á myndunum sem Hubble tók með tuttugu ára millibili. Nýja myndin er til vinstri, sú til hægri var tekin árið 1995. NASA/ESA og Hubble
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert