Fundu geimfarið ellefu árum síðar

Beagle 2 fannst á mynd Mars Reconnaissance Orbiter af yfirborði …
Beagle 2 fannst á mynd Mars Reconnaissance Orbiter af yfirborði reikistjörnunnar. NASA/JPL-Caltech/Univ. of Arizona/University of Leicester

Talið var að breska lendingarfarið Beagle 2 sem átti að lenda á Mars árið 2003 væri glatað að eilífu. Nú hefur mönnum hins vegar tekist að finna það á myndum sem brautarfar bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA tók af yfirborði reikistjörnunnar.

Tilkynnt var um fundinn í dag en síðast spurðist til Beagle 2 þegar farið losaði sig frá móðurfarinu Mars Express sem var á vegum evrópsku geimstofnunarinnar ESA 19. desember árið 2003. Sambandið við farið rofnaði og hafði ekkert til þess spurst síðan. Það átti að lenda á yfirborði Mars á jóladag sama ár. Stjórnendur farsins gerðu ráð fyrir að það hefði brotlent á yfirborði reikistjörnunnar.

Myndir frá Mars Reconnaissance Orbiter (MRO), brautarfari NASA, hafa nú leitt afdrif Beagle 2 í ljós. Geimfarið lenti heilu og höldnu en svo virðist sem að það hafi ekki náð að breiða út hluta sína eins og til stóð á yfirborðinu.

„Í hreinskilni sagt hafði ég nánast gefið upp alla von um að komast nokkru sinni að því hvað varð um Beagle 2. Myndirnar sýna að við vorum svo nálægt því að ná markmiði vísindanna á Mars. Myndirnar veita því mikla starfi fjölda fólks og fyrirtækja bæði hér í Bretlandi, Evrópu og um allan heim sem byggðu Beagle 2 uppreisn æru,“ segir Mark Sims, fyrrum leiðangursstjóri Beagle 2, sem er hæstánægður með fundinn.

Beagle 2 var ætlað að leita að lífi á yfirborði Mars og rannsaka jarðfræði, veðurfar og loftslag reikistjörnunnar. Heildarkostnaðurinn við lendingarfarið nam 120 milljónum dollara, að því er kemur fram í frétt á vefnum Space.com.

Sims segir að þrátt fyrir að sambandið við Beagle 2 hafi rofnað og það hafi ekki náð að sinna þeim rannsóknum sem farinu var ætlað þá hafi leiðangurinn langt því frá verið misheppnaður.

„Við þjálfuðum heila kynslóð verkfræðinga og vísindamanna í könnun Mars,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert