Hitametið slegið án El niño

Hlýnun jarðar verður meiri en 2°C miðað við óbreytta þróun ...
Hlýnun jarðar verður meiri en 2°C miðað við óbreytta þróun losunar gróðurhúsalofttegunda. AFP

Hnattræn hlýnun hefur gert það að verkum að árið 2014 var hlýjasta ár sem mæst hefur á jörðinni þrátt fyrir að hlýnandi áhrifa El niño-veðurfyrirbærisins hafi ekki gætt. Halldór Björnsson, loftslagsfræðingur, segir að þó ekki muni miklu á síðasta ári og fyrri metárum sé það tvímælalaust hlýrra en árið 1998 sem var ótrúlegt hitaár.

Bandaríska geimvísindastofnunin NASA og haf- og loftslagsrannsóknarstofnunin NOAA staðfestu á föstudag að árið 2014 hafi verið hlýjasta árið á jörðinni frá því mælingar hófust árið 1880. Níu af tíu heitustu árum sem mælingar ná til hafi orðið eftir árið 2000. Árið 1998 er eina árið á síðustu öld sem kemst á þann lista. Hlýnunin er aðallega tilkomin vegna aukinnar losunar manna á gróðurhúsalofttegundum.

„Þetta ár var metár en það munar ekkert miklu á því og næstu metárum. Þessu var líkt við maraþonhlaup. Maraþonmetin bætast yfirleitt ekki nema um nokkrar sekúndur í einu en samt sem áður er þetta veruleg bæting þegar litið er yfir áratugi. Það er eins með hlýnunina. Síðustu þrjú metár eru mjög álíka en þetta er þónokkuð heitara en árið 1998,“ segir Halldór sem er verkefnisstjóra loftslagsrannsókna hjá Veðurstofu Íslands.

Það sem gerir metárið nú sérstaklega merkilegt er að það er það fyrsta í mörg ár sem er ekki svonefnt El niño-ár. El niño er veðurfræðilegt fyrirbæri sem verður á nokkurra ára fresti en þá hitnar Kyrrahafið við miðbaug mikið. Það hækkar meðalhita jarðar. Eftir slíka viðburði tekur yfirleitt við kaldari tími sem kallast La niña. Árið í fyrra var hlutlaust og er fyrsta metárið á þessari öld þar sem hlýnandi áhrifa El niño naut ekki við.

Árið 1998 var metár á sínum tíma en það var ótrúlegt hitaár þar sem El niño var óvenjuhlýr það ár.

„Það er mjög merkilegt að við skulum vera komin sjálfkrafa upp fyrir það,“ segir Halldór.

Spár um 2°C hlýnun vægar

Meðalhiti jarðar hefur hækkað um 0,7 gráður frá aldamótum 1900 en hlýnunin hefur tekið sprett eftir árið 1970, að sögn Halldórs. Niðurstöður síðasta árs gefi tilefni til að ætla að hnattræn hlýnun sé óbreytt, á bilinu 0,15-0,20°C á áratug. Það þýði einnar gráðu hlýnun á hálfri öld. Séu spár manna um hlýnun hins vegar skoðaðar þá komi í ljós að spár um að hún verði tvær gráður séu tiltölulega vægar. Yfirlýst markmið Sameinuðu þjóðanna er að halda hlýnun innan við 2°C en til þess þurfa menn að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda.

„Ef losunin heldur áfram að aukast þá er mjög líklegt að við hlýnum um meira en tvær gráður á öldinni. Eins og stendur er það þannig að ef við höldum áfram með nákvæmlega sömu hlýnun þá værum við nærri tveimur gráðum við lok aldarinnar en flestir gera ráð fyrir að við endum í meira en það af því að við erum að losa svo mikið. Það er ekkert að draga úr því neitt í bili,“ segir Halldór.

Fyrri frétt mbl.is: Jörðin hlýnar áfram

Halldór Björnsson, verkefnisstjóri loftslagsrannsókna Veðurstofu Íslands.
Halldór Björnsson, verkefnisstjóri loftslagsrannsókna Veðurstofu Íslands.
NASA
mbl.is
JEMA Bílalyftur í bílskúrinn
Frábærar skæralyftur sem henta í bílskúrinn,lyfta 1,2 m og 2,8T, glussadrifnar...
Leiga, herb. hús, við Gullna hringinn..
Studio herb. með sérbaði og eldunaraðstöðu, hlýleg og kósí, 5 mínútur frá Gey...
NOTAÐ&NÝTT
NOTAÐ&NÝTT er ný verslun á Skemmuvegi 6 á bak við Byko. Mikið úrval af fallegum ...