Kjarnapasta í flækju nifteindastjarna

Nifteindastjörnur eru gríðarlega þéttar og snúast um sjálfar sig á …
Nifteindastjörnur eru gríðarlega þéttar og snúast um sjálfar sig á ógnarhraða, allt upp í mörg hundruð snúninga á sekúndu. Af Stjörnufræðivefnum

Nifteindastjörnur eru einhver furðulegustu fyrirbærin sem menn hafa uppgötvað í alheiminum. Þær eru svo þéttar að biti úr slíkri stjörnu á stærð við sykurmola gæti vegið 100 milljónir tonna. Í skorpu þeirra er að finna efni sem kallað hefur verið „kjarnapasta“ en nýjar rannsóknir benda til þess að það sé ennþá meira framandi en áður var talið.

Líkt og svarthol eru nifteindastjörnur leifar sprengistjarna. Nifteindastjörnurnar eru gríðarlega þéttar og snúast um sjálfar sig á ógnarhraða. Algengt er að þær séu aðeins tæpir 20 kílómetrar að þvermáli en hafi svipaðan massa og sólin okkar, að því er kemur fram í frétt á vefnum Space.com. Þær eru enda þéttustu fyrirbærin í alheiminum ef frá eru talin svarthol.

Svo gríðarlegur þrýstingur er í skorpu nifteindastjarna að kjarnar atómanna kremjast svo þétt saman að róteindir og nifteindir þeirra raðast upp í mynstur sem líkjast helst pasta. Stundum líkist það spaghettí, stundum flötum plötum eins og lasagna og stundum spíral eins og fusilli.

Gefur hugmyndir um afdrif segulsviðs nifteindastjarna

Kennilegir eðlisfræðingar settu fyrst fram kenningar um tilvist kjarnapasta fyrir mörgum árum. Það væri að finna á milli skorpu nifteindastjarna og ytri kjarna þeirra. Árið 2013 fengust hins vegar loksins fyrstu athuganirnar sem renndu stoðum undir tilvist þess.

Rannsóknir höfðu bent til þess að tilvist kjarnapasta þýddi að hiti og rafmagn ættu erfiðara að leiða í gegnum nifteindastjörnur. Það leiddi til þess að segulsvið slíkra stjarna myndi hverfa mun hraðar en búist var við. Þær myndu missa minni orku og því halda áfram að snúast lengur. Erfiðlega hefur gengið að finna nifteindastjörnur með lítinn snúningshraða og hefur það talið styðja tilvist kjarnapasta.

Nú hafa vísindamenn hins vegar komist að því að lögun pastans sé flóknari en áður var talið. Það geti myndað óreiðukennd form. Það þýði að nifteindastjörnur leiði hita og rafmagn jafnvel verr en menn héldu.

Tilvist pastans gefur mönnum hugmyndir um hvað verður um gríðarlega öflug segulsvið nifteindastjarna. Þau geta verið allt að biljón (milljón milljón) sinnum sterkari en segulsvið jarðarinnar.

„Ef leiðnin er lág þá gætu hinir miklu rafstraumar sem halda sviðinu uppi fjarað út á um milljón árum,“ segir Charles Horowits, eðlisfræðingur við Indíanaháskóla í Bandaríkjunum sem leiddi rannsóknina.

Frétt á vefnum Space.com um kjarnapasta

Grein á Stjörnufræðivefnum um nifteindastjörnur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert