Vilja senda geimverum skilaboð

SETI notar útvarpssjónauka til þess að leita að ummerkjum um …
SETI notar útvarpssjónauka til þess að leita að ummerkjum um vitsmunalíf utan jarðarinnar. Af Wikipedia

Menn hafa leitað ummerkja um vitsmunalíf á öðrum hnöttum með því að beina útvarpssjónaukum upp í himingeiminn í yfir þrjátíu ár. Leitin hefur engan árangur borið fram að þessu og vilja sumir vísindamenn nú hefja virkari leit með því að senda út skilaboð frá mannkyninu til geimvera.

„Sum okkar hjá [SETI] höfum áhuga á virkri leit að vitibornu lífi utan jarðarinnar, ekki með því að hlusta bara heldur að senda eitthvað til nálægra stjarna vegna þess að það er möguleiki ef þú vekur einhvern að þú fáir svar,“ segir Seth Shostak, framkvæmdastjóri SETI-stofnunarinnar sem hefur leitað að lífi utan jarðarinnar síðustu áratugi.

Ekki allir eru á sama máli. Aðrir telja að það geti verið hættulegt að vekja athygli geimvera á tilvist jarðarbúa. Þær gætu gert sér ferð hingað og gjöreytt jörðinni og okkur í leiðinni. Shostak segist hins vegar ekki sjá hvaða hvata geimverur ættu að hafa til að gera slíkt. Þar að auki hafi útvarpsbylgju borist frá jörðinni um margra áratuga skeið út í geiminn.

„Þau samfélög sem gætu komið hingað og eyðilagt daginn fyrir okkur með því að gjöreyða plánetunni vita nú þegar að við erum hér,“ segir Shostak.

SETI mun á næstunni standa fyrir málþingi um hvaða skilaboð menn eigi að senda út í alheiminn. Sumir telja að menn ættu að senda út fegraða mynd af mannkyninu og sleppa óþægilegum staðreyndum líkt og um atvinnuumsókn væri að ræða. Shostak er hins vegar á öndverðum meiði.

„Mín persónulega skoðun er að senda internetið, senda það allt vegna þess að ef þú sendir mikið magn upplýsinga þá er einhver möguleiki á að þær [geimverurnar] nái að ráða í þær,“ segir hann.

Frétt BBC af hugmyndum SETI um að senda skilaboð til geimvera

mbl.is