Brúnn dvergur hvarf sporlaust

Víðmynd af stjörnuhimninum í kringum V471 Tauri. Tvístirnið sjálft sést …
Víðmynd af stjörnuhimninum í kringum V471 Tauri. Tvístirnið sjálft sést aðeins sem hefðbundinn og hófleg björt stjarna um myndina miðja. ESO/Digitized Sky Survey 2

Dularfullt hvarf á brúnum dverg gæti hljómað eins og söguþráður úr þáttaröðinni „Tvídröngum“ eftir David Lynch. Það var engu að síður sá raunveruleiki sem stjarnvísindamenn stóðu frammi fyrir þegar þeir leituðu að brúnum dverg sem þeir áttu von á að finna við óvenjulegt tvístirni.

Fyrir skömmu var SPHERE, nýju mælitæki á VLT-sjónauka evrópsku stjörnustöðvarinnar á Suðurhveli ESO, notað í leit að brúnum dverg sem búist var við að væri á braut um óvenjulegt tvístirni, V471 Tauri. Með SPHERE náðu stjörnufræðingar bestu myndum sem náðst hafa til þessa af nágrenni þessa áhugaverða fyrirbæris en á þeim fannst ekki neitt. Þetta undarlega hvarf brúna dvergsins þýðir að viðtekna skýringin á sérkennilegri hegðun V471 Tauri er röng. Greint er frá þessum óvæntu niðurstöðum í fyrstu birtu ritrýndu greininni um mælingar með SPHERE.

Hringsóla hvor um aðra á tólf klukkustundum

Sum tvístirni samanstanda af tveimur hefðbundnum stjörnum með örlítið mismunandi massa, að því er segir í frétt á vef ESO. Þegar efnismeiri stjarnan eldist, þenst út og breytist í rauða risastjörnu, flyst efni frá henni út í geiminn svo á endanum eru báðar stjörnurnar umluktar risavöxnum gashjúpi. Þegar gashjúpurinn dreifst út á við, færast stjörnurnar nær hver annarri og til verður mjög þétt tvístirnapar þar sem efnismeiri stjarnan er orðin að hvítum dverg á braut um aðra hefðbundnari stjörnu.

V471 Tauri er dæmi um slíkt tvístirni. Það er að finna í Regnstirninu, stjörnuþyrpingu í stjörnumerkinu Nautinu sem er talin um 600 milljón ára gömul og í um 163 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjörnurnar tvær liggja mjög þétt saman og hringsóla hver um aðra á tólf klukkustundum. Í tvígang í hverri umferð gengur önnur stjarnan fyrir hina sem leiðir til reglulegra birtubreytinga á kerfinu frá jörðu séð þegar stjörnurnar myrkva hver aðra.

Fundu hvorki tangur né tetur af dvergnum

Hópur stjörnufræðinga undir forystu Adam Hardy (Universidad Valparaíso, Valparaíso, Chile) notaði fyrst ULTRACAM-mælitækið á New Technology Telescope ESO til að mæla birtubreytingarnar með mikilli nákvæmni. Tímasetning myrkvanna var mæld með nákvæmni upp á tvær sekúndu sem er mun meiri nákvæmni en nokkru sinni fyrr.

Í ljós kom að birtubreytingarnar eða myrkvarnir voru ekki reglulegar en það mátti skýra með því að á braut um tvístirnið væri brúnn dvergur sem hefði truflandi áhrif á stjörnurnar með þyngdartogi sínu. Einnig voru merki um annan og minni fylgihnött.

Hingað til hefur verið ógjörningur að ná myndum af daufum brúnum dvergum í mikilli nálægð við miklu bjartari móðurstjörnu. Greinigæði SPHERE mælitækisins nýja á VLT-sjónaukanum gerði stjörnufræðingum hins vegar í fyrsta sinn kleift að leita að brúna dvergnum á þeim stað í kringum tvístirnið sem spár sögðu til um að hann væri. Hvorki fannst tangur né tetur af brúna dvergnum, jafnvel þótt SPHERE hefði auðveldlega átt að greina hann.

„Margar ritrýndar greinar gera ráð fyrir tilvist brúnna dverga í kringum tvístirni en niðurstöður okkar ganga í berhögg við þá tilgátu,“ sagði Adam Hardy.

Breytingar á segulsviði möguleg skýring

Ef enginn brúnn dvergur er á braut um stjörnurnar, hvað veldur þá þessum undarlegu breytingum á brautum stjarnanna? Nokkrar tilgátur hafa verið settar fram og þótt sumar hafi þegar verið útilokaðar er mögulegt að áhrifin séu af völdum breytinga á segulsviði stærri stjörnunnar, svipað þeim segulsviðsbreytingum sem verða á sólinni og eru nokkuð umfangsminni.

„Um árabil hefur verið mikilvægt að ráðast í rannsókn sem þessa en hún er aðeins möguleg eftir tilkomu nýrra mælitækja á borð við SPHERE. Svona virka vísindin: Mælingar með nýrri tækni geta annað hvort staðfest eða, eins og í þessu tilviki, hrakið eldri hugmyndir. Það er frábært að hefja rannsóknir með þessu stórkostlega tæki á þennan hátt,“ sagði Adam Hardy að lokum.

Frétt á vef ESO á íslensku um undarlegt hvarf brúna dvergsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert