Asíubúar meiri Neanderdalsmenn

Hauskúpa Neandersdalsmanns (t.v.) við hlið höfuðkúpu nútímamanns (t.h.).
Hauskúpa Neandersdalsmanns (t.v.) við hlið höfuðkúpu nútímamanns (t.h.). EPA

Samanburðarrannsóknir á erfðamegni Neanderdalsmanna og nútímamanna hafa meðal annars leitt í ljós að núverandi íbúar í Kína, Japan og öðrum Austur-Asíulöndum hafi allt að fimmtungi meira erfðaefni sameiginlegt með Neanderdalsmönnum en Evrópubúar.

Nokkur ár eru síðan að í ljós kom að Neanderdalsmenn hefðu eignast afkvæmi með forfeðrum núverandi Evrópu- og Asíubúa fyrir um 50.000 árum. Tveir hópar vísindamanna hafa nú komist að því að Neanderdalsmennirnir æxluðust einnig með forfeðrum Asíubúa seinna í sögunni og gáfu þeim þannig viðbótarskammt af DNA-erfðaefni sínu, borið saman við Evrópumennina.

Vísindamenn áætla að forfeður nútímamanna og Neanderdalsmanna hafi þróast hvor í sína áttina fyrir um 600.000 árum. Forfeður okkar höfðust við í Afríku þangað til fyrir um 60.000 árum en færðu sig svo upp til Evrópu og Asíu. Á leiðinni hitti þeir Neanderdalsmenn sem þeir blönduðust við.

Áttu að hafa dáið út fyrir aðskilnað Evrópu- og Asíubúa

Nútímafólk sem er ekki af afrískum uppruna er með langa kafla af DNA-keðjum sínum sem eru nærri því nákvæmlega eins og þær sem voru í Neanderdalsmönnum. Þær nema um 2% af heildargenamengi þeirra. Þetta eru sterkar vísbendingar um að Neanderdalsmenn hafi æxlast með þessum landnemum sem komu frá Afríku, líklega í Vestur-Afríku. Íbúar í Kína, Japan og öðrum Austur-Asíulöndum hafa hins vegar allt að 20% meira af erfðaefni Neanderdalsmanna en Evrópumenn samkvæmt nýju rannsóknunum.

Enn er ekki komin skýring á því af hverju þessi munur á Evrópu- og Asíubúum er til kominn. Líklegasta skýringin telja menn á þessari stundu vera þá að Neanderdalsmenn hafi æxlast með forfeðrum Asíubúa eftir að forfeður Evrópu- og Asíubúa greindust í sundur.

Sá galli er hins vegar á þessari kenningu að fram að þessu hefur verið talið að Neanderdalsmennirnir hafi dáið út fyrir um 40.000 árum. Það er áður en forfeður Evrópu- og Asíubúa héldu hvor í sína áttina. Það kallar á spurninguna hvernig þeir hefðu getað dælt erfðaefni sínu inn í erfðamengi Asíubúa eftir það.

Einn möguleiki er að Neandersdalsmennirnir hafi dáið seinna út í Asíu en í Evrópu. Hafi svo verið gætu steingerð bein þeirra enn verið ófundin í Asíu. Annar er að Asíubúar hafi blandast öðrum hópi manna sem hafi æxlast með Neanderdalsmönnum og sá hópur hafi síðan horfið.

Frétt The New York Times af nánum kynnum Neanderdalsmanna og Asíubúa

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert