Banvænn mislingafaraldur í Berlín

Foreldrar eru hvattir til að halda áfram góðri þátttöku í …
Foreldrar eru hvattir til að halda áfram góðri þátttöku í bólusetningum því aðeins á þann hátt má halda þessum alvarlega smitsjúkdómi frá landinu. AFP

Barn á öðru ári lést í síðustu viku úr mislingum í Berlín og loka þurfti skóla í borginni í dag vegna mislinga en þar geisar nú alvarlegur mislingafaraldur og sá versti síðan árið 2001.

Mislingar eruveirusjúkdómur sem er mjög smitandi og einkennist af hita og útbrotum um allan líkamann. Mislingar geta verið hættulegir og jafnvel valdið dauða.

Barnið sem lést í dag var átján mánaða gamalt en ekki er vitað á þessari stundu hver smitleiðin var. Síðasta dauðsfallið vegna mislinga í Þýskalandi var árið 2013 er unglingspiltur lést vegna aukaverkana af sjúkdómnum sem hann hafði fengið í barnæsku.

Á fyrstu sjö vikum ársins hafa komið upp rúmlega 500 tilvik mislinga í Berlín og eru upptök smitsins rakin til samfélags flóttamanna frá Serbíu og Bosníu en þar var ekki bólusett gegn mislingum þegar stríðin geisuðu í fyrrverandi ríkjum Júgóslavíu á tíunda áratug síðustu aldar. 

Mislingar hafa komið upp víða um Bandaríkin á undanförnum vikum en á annað hundrað manns hafa veikst af mislingum þar í landi. Flestir þeirra smituðust í skemmtigarðinum Disneyland. 

Eina leiðin er að bólusetja

„Mislingar var algengur sjúkdómur á meðal barna hér á árum áður. En eftir að farið var að bólusetja gegn honum hefur dregið mjög úr algengi hans í hinum vestræna heimi. Öllu jafna eru mislingar mildur sjúkdómur hjá börnum en allt að 10% þeirra sem sýkjast fá alvarlega fylgikvilla svo sem heilabólgu eða lungnabólgu.
Mislingafaraldur kom upp í Evrópu á árinu 2011 og 2012 og greindust um 30 þúsund einstaklingar með mislinga hvort árið. Flestir þeirra sem veiktust voru í Frakklandi, Ítalíu, Rúmeníu, Spáni og á Bretlandseyjum og voru óbólusettir. Margir þeirra sem sýktust dóu og aðrir hlutu alvarlega fylgikvilla,“segir orðrétt á vef landlæknis.

„Bólusetning gegn mislingum gefur um 95% vörn. Þátttaka á Íslandi í bólusetningu gegn mislingum hefur verið með ágætum á undanförnum árum eða tæplega 95%. Foreldrar eru hvattir til að halda áfram góðri þátttöku í bólusetningum því aðeins á þann hátt má halda þessum alvarlega smitsjúkdómi frá landinu,“ segir á vef landlæknis.

Mislingafaraldur hefur einnig geisað í Miami í Bandaríkjunum að undanförnu
Mislingafaraldur hefur einnig geisað í Miami í Bandaríkjunum að undanförnu AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina